Nýjast á Local Suðurnes

Hugsaðu vel um fjármálin

Af hverju verður bíll bensínlaus? Algengustu ástæður er að ökumaður misreiknar sig, veit ekki hve mikið bensín er til eða ákveður að láta reyna á að komast á leiðarenda. Bensínið klárast svo áður en að viðkomandi kemst á áfangastað.

Haukur Hilmarsson - Fjármálaráðgjafi

Haukur Hilmarsson – Fjármálaráðgjafi

Ef við skipuleggjum hvernig við notum bílinn og látum þjónusta hann þá erum við öruggari og minni líkur eru á að hann stoppi eða bili.  Ef við hins vegar sinnum bílnum ekkert, förum ekki með hann í reglubundna skoðun, ef við látum ekki laga það sem bilar og ef við kaupum ekki bensín á bílinn þá mun hann að lokum stoppa. Og þá er líklegra að það kosti okkur meiri pening að komast aftur af stað en það hefði kostað að halda bílnum í lagi.

Fjármálin okkar eru eins og bíll. Ef við hugsum um þau þá virka þau. En á svipaðan hátt og með bíla þá er líklegt að eitthvað fari úrskeiðis ef við fylgjumst ekki með ástandinu. Það er því afar mikilvægt að við fylgjumst reglulega með því sem er að gerast og hugsum vel um fjármálin okkar. Stuttir vikulegir fjármálafundir geta skipt sköpum í fjármálum og samskiptum við maka, fjölskyldu og lánastofnanir. Við getum brugðist við strax og við sjáum eitthvað er varhugavert rétt eins og ökumaðurinn getur brugðist við þegar hann heyrir eða finnur að bíllinn er ekki að virka rétt. Fjármálafundur er líka eins og bensínmælir því við getum séð hvort peningurinn dugar út mánuðinn og brugðist við með því að spara eða auka tekjur til að ná endum saman.

Boðaðu þitt fólk á fyrsta fjármálafundinn í kvöld. Metið ástandið og takið ákvarðanir – það borgar sig.