Nýjast á Local Suðurnes

Sparnaðarráð vikunnar er að hlusta á sjálfan sig

Þegar við förum þreytt, reið, sár eða svöng í búðina þá kaupum við oftar en ekki mat og vörur sem við myndum annars ekki kaupa. Allir kannast við hve erfitt það er að standast freistingar þegar við erum svöng í stórinnkaupum eða hve mikla þörf við höfum til að flýta okkur að versla þegar við erum þreytt eða pirruð. Þetta á líka við allt annað í fjármálunum okkar.

Haukur Hilmarsson - Fjármálaráðgjafi

Haukur Hilmarsson – Fjármálaráðgjafi

Ef við förum hrædd, reið eða sorgmædd til þjónustufulltrúa í viðskiptabankanum okkar þá eru miklar líkur á að við gerum óhagstæða samninga.

Þegar við erum hrædd, reið eða sorgmædd þá eru auknar líkur á að við opnum ekki gluggapóst eða förum ekki inn á netbankann okkar.

Við þurfum að hlusta á okkur sjálf og læra að bregðast rétt við. Við lærum af reynslunni og förum ekki svöng eða með þreytt börn í stórverslanir. Við lærum af reynslunni að hlaupa ekki í næstu tískubúð eða raftækjaverslun og kaupa eitthvað „gott“ um leið og við eigum aukapening. Ef við erum hrædd, reið eða sorgmædd að laga erfið skuldamál þá biðjum við þjónustufulltrúa banka eða innheimtustofnunar um allar upplýsingar skifaðar á blað eða prentaðar út. Svo förum við heim þar sem við fáum tækifæri til að drekka te og slaka á, skoða stöðuna, fá annað álit, og taka síðan ákvörðun um hvort samningarnir eða þjónustan sé hagkvæm og góð fyrir okkur eða ekki.

Ef við hlustum á hvernig okkur líður þá lærum við að takast á erfiðu aðstæðurnar.