Nýjast á Local Suðurnes

Níu ára stúlka þarf að bíða í 4 daga eftir að komast í aðgerð vegna handleggsbrots

Lilja Líf, 9 ára gömul stílka úr Reykjanesbæ, sem handleggsbrotnaði á mánudag, fær ekki tíma í aðgerð til að laga brotið fyrr en á föstudaginn sökum álags á vöknunardeild Landspítalans. Þetta kemur fram í færslu sem faðir stúlkunnar, Ari Elíasson ritaði á Facebook.

Ari, sem er reyndur sjúkraflutningsmaður segist í færslunni strax hafa séð greinileg ummerki um alvarlegt brot og verið verið mjög hissa þegar hann fékk þær fréttir að brotið yrði ekki lagað með aðgerð fyrr en fjórum dögum síðar.

“…sá ég greinileg ummerki um brot og fór með hana beint niður á HSS. Þar er hún mynduð, myndir sendar inn á Landspítala Fossvogi til að meta hvort það þyrti að setja hana í aðgerð strax þar sem brotið var nokkuð ljótt. Vakthafandi læknir á HSS tjáir okkur eftir dágóða stund að hún verði sett í gifs-spelku yfir nóttina og haft verði samband frá bæklunarlækni í LSH.Fossvogi milli 8-9 daginn eftir, semsagt í morgun. Þegar hringt er okkur þaðan er okkur tjáð að hún komist ekki í aðgerð fyrr en á miðvikudag eða föstudag. Ekki grunaði okkur þegar við fengum síðan aftur símtal í hádeginu að ákveðið hefði verið að þetta yrði ekki lagað fyrr en á föstudag, semsagt 4 nætur heima áður en barnið kemst í aðgerð..!!!” Segir Ari í Facebook-færslunni.

Í samtali við DV segir Ari að svæfingahjúkrunarfræðingur hafi sagt við sig fyrr í morgun að hún hafi aldrei, þrátt fyrir langan starfsaldur, heyrt um að barn með jafn alvarlegt brot þurfi að bíða svo lengi eftir að komast í aðgerð.

Ari greinir jafnframt frá því að samkvæmt bæklunardeild Landspítalans sé ástæða biðarinnar sú að mikið álag sé á vöknunardeild spítalans. „Þar myndast flöskuhálsinn sem er ástæðan fyrir því að hún kemst ekki fyrr í aðgerð. Mér var sagt að álagið væri svo mikið meðal annars vegna þess að ferðamenn hefðu upp á síðkastið mikið lent í slysum og bílveltum. Þess vegna kemst hún ekki að.“