Nýjast á Local Suðurnes

Ráðningarsamningur bæjarstjóra samþykktur

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar - Mynd: Skjáskot RÚV

Ráðningarsamningur Reykjanesbæjar og Kjartans Más Kjartanssonar, bæjarstjóra, var samþykktur í bæjarráði Sveitarfélagsins með atkvæðum meirihlutns. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins sat hjá við afgreiðsluna, en flokkurinn leggst alfarið á móti því að launahækkun bæjarstjórans taki hækkunum samkvæmt launavísitölu.

Eftir hækkun verða laun bæjarstjóra 2.431.546 krónur og hafa laun hans því hækkað um 31% á síðasta kjörtímabili, úr 1.850.000 krónum, segir í bókun frá fulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Meirihluti bæjarráðs bókaði einnig um málið og er báðar bókanirnar að finna hér fyrir neðan.

Bókun Sjálfsstæðisflokks:

,,21. júní 2018 var samþykkt að laun bæjarstjóra yrðu kr. 1.850.000,- . Þá var einnig samþykkt að laun tækju breytingum skv. meðalhækkun opinberra starfsmanna. Auk þessa launaliðar fékk bæjarstjóri greitt fyrir akstur, laun í stjórnum sem hann situr og greiddan síma, tölvu og tölvutengingu heima.

Nú er verið að leggja til endurnýjun á samningi bæjarstjóra og lagt til að launin verði 2.330.000.- og að ofangreindir liðir haldi sér ásamt því að greiddar verði slysa- og líftryggingar sem ekki var getið í samningi síðast en skv. upplýsingum hafa verið greiddar síðasta kjörtímabil. Laun þau sem lagt er til núna þýðir 26% hækkun launa frá júní 2018.

Laun bæjarstjóra núna eru 2.431.546.- og hafa laun hans því hækkað um 31% á síðasta kjörtímabili.

Í síðustu kjarasamningum var ákveðið að lægstu laun skuli hækka meira en þeirra sem hærri hafa laun. Samkvæmt kjarasamningum á almennum markaði hafa laun almennt hækkað um 10%. Í svari við fyrirspurn Sjálfstæðisflokksins um hækkun launa almennra starfsmanna Reykjanesbæjar sem fá greitt skv. STFS (Starfsmannafélagi Suðurnesja) frá 21. júní 2018 eru hækkanir eftirfarandi:

Í janúar 2020 kr. 17.000
Í apríl 2020 kr. 24.000
Í janúar 2021 kr. 24.000
Í janúar 2022 kr. 25.000

Á þessum tíma hafa laun bæjarstjóra hækkað um 581.546 kr. á mánuði á meðan laun starfsmanna í Starfsmannafélagi Suðurnesja hafa hækkað um 90 þúsund. Þetta samræmist ekki markmiði kjarasamninga um að hækkun launa eigi að vera mest á lægstu laun.

Í máli meirihlutans í Reykjanesbæ (Framsóknar, Samfylkingar og Beinnar leiðar) benda þeir á að launavísitala hafi hækkað um 31% og það sé sama hækkun og bæjarstjóri hafi fengið ásamt sviðsstjórum bæjarins. Augljóslega hefur launavísitala hækkað meira en almenn laun þar sem prósentuhækkun á lægstu laun er ansi há.

Samkvæmt ársreikningum Reykjanesbæjar fyrir árið 2018 og 2021 hafa laun og launatengd gjöld hjá Reykjanesbæ hækkað um 51,6% á þessu tímabili. Hluti þessarar hækkunar er vegna fjölgunar starfsmanna og hluti vegna þeirra óhóflegra hækkana launa sem er í engu samræmi við almennar launahækkanir.

Vegna þessa teljum við bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokkins við ekki geta annað en setið hjá við afgreiðslu samnings við bæjarstjóra og teljum mikilvægt í aðdraganda kjarasamninga að gæta hófs í samningum við æðstu stjórnendur.

Sjálfstæðisflokkurinn leggur til að laun bæjarstjóra hækki um 10% frá upphafi kjörtímabils 2018 og að hann haldi að öðru leyti sömu hlunnindum og áður. Hækkanir verði síðan samhliða því sem almennt gerist í kjarasamningum.

Sjálfstæðisflokkurinn leggst alfarið á móti hækkun bæjarstjórans taki hækkunum samkvæmt launavísitölu enda hefur þá hækkun lægstu launa mikil áhrif á laun bæjarstjóra til hækkunar.‘‘

Margrét Sanders (D), Guðbergur Reynisson (D) og Helga Jóhanna Oddsdóttir (D).

Bókun meirihluta:

,,Meirihluti bæjaraðs Reykjanesbæjar harmar málflutning oddvita Sjálfstæðisflokksins sem einkennist af rangfærslum og tilhæfulausum staðhæfingum. Laun bæjarstjóra verða að vera raunhæf og í samræmi við laun bæjarstjóra í öðrum sveitarfélögum. Laun bæjarstjóra lækka um 5% frá því sem áður var en auk þess er fallið fra biðlaunum bæjarstjóra ef viðkomandi tekur við nýju starfi. Launahækkanir bæjarstjóra eru í samræmi við kjarasamninga sem taka mið af hækkunum vísitölu sem er sambærilegt og hjá bæjarfulltrúum, sviðsstjórum og öðrum stjórnendum í sveitarfélaginu.‘‘

Friðjón Einarsson (S), Guðný Birna Guðmundsdóttir (S), Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir (B) og Valgerður B. Pálsdóttir (Y).