Nýjast á Local Suðurnes

Úttekt lokið innanhúss – Ríkisendurskoðun kom ekki að skoðun á fjármálum líknarsjóðs

Kirkjuráð lauk skoðun á málefnum sóknarprests Ytri-Njarðvíkurkirkju í apríl síðastlinum, en ráðið hóf úttekt á fjármálum Njarðvíkurprestakalls í byrjun árs vegna bílastyrks sem sóknarpresturinn hafði þegið undanfarin ár. Greiðslunum sem námu 88 þúsund krónum á ári, hefur verið hætt.

Þá hóf ráðið úttekt á málum er varða líknarsjóð Ytri-Njarðvíkurkirkju á sama tíma, ekki kom fram í fundargerðum Kirkjuráðs hvort skoðun á málum sem varða líknarsjóðinn hafi lokið á sama tíma, en í svari við fyrirspurn Suðurnes. net sagði Ellisif Tinna Víðisdóttir, framkvæmdastjóri Kirkjuráðs, svo vera, hún gat þó ekki svarað hvort málinu væri að fullu lokið.

“Því máli er lokið hvað okkur varðar. Hvort málinu sem slíku sé lokið get ég ekki svarað.” Sagði í stuttu svari framkvæmdastjórans.

Fram kom í frétt RUV að Ríkisendurskoðun hafi komið að skoðun á fjárreiðum Líknarsjóðs Ytri-Njarðvíkurkirkju eftir að Kvenfélag Njarðvíkur lagði fram kvörtun vegna styrkja sem virtust ekki hafa skilað sér til bágstaddra um jól. Um var að ræða 100 matarkort, upp á 20.000 krónur hvert eða sem samsvarar tveimur milljónum króna, sem kvenfélagið gaf líknarsjóðnum fyrir jólin 2012.

Í skriflegu svari frá Ríkisendurskoðun við fyrirspurn Suðurnes.net kemur fram að stofnunin hafi ekki komið að úttekt þessara mála, hvorki málum er varða bílastyrki sóknarprests né málum sem snúa að líknarsjóðnum.

“Við athugun kirkjuráðs á reikningsskilum líknarsjóðs Ytri-Njarðvíkurkirkju  var þegar á reyndi hvorki leitað eftir  afstöðu né aðstoð Ríkisendurskoðunar við að rýna þau gögn, sem ráðið aflaði við athugun sína. Af þessum sökum kom stofnunin ekki á  að nefndri úttekt.” Segir meðal annars í svari Ríkisendurskoðunar.

Málinu virðist þannig hafa lokið innanhúss hjá Kirkjuráði án aðkomu Ríkisendurskoðunar.