Nýjast á Local Suðurnes

Fáir nýttu aðstoð fyrir börn í tengslum við fjárhags- og húsnæðisvanda

Mikið í húfi til að búa börnum öruggt heimili, segir félagsmálaráðherra

Niðurstöður könnunar á afdrifum fjölskyldna á Suðurnesjum sem misstu húsnæði sitt á nauðungarsölu á árunum 2008-2011, sem unnin var af Velferðarráðuneytinu, leiðir í ljós að svarendur með börn á heimili sem spurðir voru hvort aðstoð og ráðgjöf hefði verið nýtt fyrir börn í tengslum við fjárhags- og húsnæðisvanda, s.s. vegna flutninga eða skólaskipta, nýttu illa þau úrræði sem í boði voru en aðeins 8% af svarendum sögðu að einhver slík úrræði hefðu verið nýtt, þó kom fram í könnuninni að svarendur þekktu vel til þeirra úrræða sem í boði voru fyrir börn.

15% barna þurftu að hætta í tómstunda- eða íþróttastarfi

Í apríl 2014 voru börn búsett á um helmingi þeirra heimila þar sem húsnæði var selt á nauðungarsölu. Um 45% barnanna þurftu að skipta um skóla, um 32% barnanna misstu tengsl við vini sína samkvæmt upplýsingum svarenda og um 15% þeirra þurftu að hætta í tómstunda- eða íþróttastarfi. Í tengslum við könnunina voru tekin viðtöl við sex fjölskyldur af Suðurnesjum, þar af voru fimm með börn á heimilinu. Í viðtölum kom gegnumgangandi fram að viðmælendur gættu þess að láta börnin ekki vita af fjárhags- og húsnæðisvanda.

börn

15% barna þurftu hætta í tómstunda- eða íþróttastarfi vegna fjárhagsvanda foreldra.

Mæður nýttu frekar þau úrræði sem í boði voru

Um ástæður þess að úrræði hefðu ekki verið nýtt var töluverður munur eftir kyni viðmælanda þannig að feður sögðu börn sín ekki eiga í neinum vanda og/eða fannst ekki ástæða til að leita sérstakra úrræða, en mæðurnar sögðu frekar frá ýmsum vanda barnanna og þekktu vel til úrræða og hvaða leiðir væru greiðar og höfðu þegar sett málin í lausnarferli.

Meirihluti þátttakenda hamingjusamur þrátt fyrir húsnæðismissi

Þátttakendur í könnun Velferðarráðuneytisins voru fengnir til að meta hversu hamingjusamir þeir væru, á kvarða frá 0 til 10, notast var við kvarða úr rannsókninni Félagslegt umhverfi Evrópu (Europe Social Survey, ESS) og niðurstöður bornar saman við niðurstöður ESS fyrir Ísland sem Félagsvísindastofnun lagði fyrir fullorðna Íslendinga á landsvísu árið 2012.

Yfirgnæfandi meirihluti svarenda í könnuninni staðsetur sig ofan við miðgildi kvarðans, eða 83%, en þrátt fyrir það meta svarendur frá Suðurnesjum sig síður hamingjusama en aðrir svarendur á landinu.

Mikið í húfi til að búa börnum öruggt heimili, segir félagsmálaráðherra

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, segir niðurstöður könnunarinnar undirstrika hve mikilvægt sé að skapa húsnæðismarkað með fjölbreyttum valkostum sem henta ólíkum aðstæðum fólks og efnahag: „Við getum ekki tryggt öllum öruggt húsnæði nema með því að gera leiguhúsnæði og búseturétt að raunhæfum kosti. Niðurstöðurnar sýna líka glöggt hve mikið er í húfi til að búa börnum, öllum börnum öruggt heimili.“

Eyglo_Hardardottir

Eygló Harðardóttir