Nýjast á Local Suðurnes

Andlát: Ásbjörn Jónsson

Ásbjörn Jónsson, lögmaður, lést þriðjudaginn 3. desember síðastliðinn, 60 ára að aldri. Ásbjörn starfaði allan sinn starfsferil sem lögmaður á Suðurnesjum, síðast hjá Reykjanesbæ frá árinu 2015, fyrst sem sviðsstjóri stjórnsýslusviðs og síðar sem bæjarlögmaður til æviloka.

Ásbjörn lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja árið 1978. Hann lauk cand.jur prófi með 1. einkunn frá lagadeild Háskóla Íslands árið 1984. Ásbjörn öðlaðist héraðsdómslögmannsréttindi árið 1984 og réttindi til málflutnings fyrir Hæstarétti árið 2011. Þá hafði hann réttindi sem löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali á árunum 1987-2008.

Ásbjörn starfaði allan sinn starfsferil sem lögmaður á Suðurnesjum. Hann starfaði sem fulltrúi og síðar eigandi Lögfræðistofu Suðurnesja árin 1984-2015 og frá árinu 2015 og allt til æviloka starfaði hann hjá Reykjanesbæ, fyrst sem sviðsstjóri stjórnsýslusviðs og síðar sem bæjarlögmaður. Ásbjörn var lykilmaður í endurskipulagningu á fjármálum Reykjanesbæjar og kom að öllum mikilvægum ákvörðunum sem teknar voru í viðræðum Reykjanesbæjar við kröfuhafa. Þá var Ásbjörn mikilvægur þátttakandi í endurskoðun á skipulagi í stjórnsýslu Reykjanesbæjar og við mótum framtíðarstefnu sveitarfélagsins.

Auk lögfræðistarfa gegndi Ásbjörn margs konar trúnaðarstörfum, m.a. fyrir Þjóðkirkju Íslands. Hann var kjörinn á Kirkjuþing árið 2006 þar sem hann var m.a. í forsætisnefnd árin 2006-2010. Þá sat hann í Kirkjuráði árin 2010-2015. Ásbjörn var í stjórn Héraðssjóðs Kjalarnesprófastsdæmis árin 1998-2015. Hann sat í sóknarnefnd Útskálasóknar á árunum 1992-2012 og gegndi að auki margs konar trúnaðarstörfum fyrir Sveitarfélagið Garð. Ásbjörn var virkur í starfi Rótarýklúbbs Keflavíkur um árabil. Hann var dómari við knattspyrnudómstól KSÍ um árabil og var um tíma prófdómari við lagadeild Háskólans á Bifröst.

Eftirlifandi eiginkona Ásbjörns er Auður Vilhelmsdóttir. Dætur þeirra eru Björg, Birna og Bergrún.

Útför Ásbjörns verður gerð frá Keflavíkurkirkju föstudaginn 13. desember nk. kl. 13:00.