Nýjast á Local Suðurnes

Með bakþanka um starfssemi í Reykjanesbæ vegna umræðu um eldsumbrot

Ljósmynd: Reykjanesbær.is / OZZO

Fyrirtæki, sem eru að skoða möguleika á að setja upp starfsstöðvar í Reykjanesbæ eru með bakþanka vegna umræðu um eldsumbrot á Reykjanesskaga, um er að ræða bæði erlend og innlend fyrirtæki.

Þetta kom fram í máli Kjartans Más Kjartanssonar, bæjarstjóra Reykjanesbæjar í viðtali við fréttastofu RÚV. Fram kom í máli Kjartans að ekkert þeirra hafi þó hætt við að flytja starfsemi sína til sveitarfélagsins vegna umræðunnar.

Kjartan Már bendir meðal annars á að umræða í fjölmiðlum um að Keflavíkurflugvöllur gæti verið í hættu vegna eldsumbrota hafi skotið fyrirtækjum skelk í bringu. „Vegna þess að umræðan um Reykjanesskaga finnst okkur þannig að hér sé allt að rifna í sundur, en það er alls ekki þannig,“ segir hann í viðtali við RÚV.

Í gegnum Reykjanesskaga liggja flekaskil Norður-Ameríku- og Evrópuflekans, sem eiga sinn þátt í að skapa þá auðlind sem jarðhitinn er. Eldsumbrotin eru öll á sunnanverðum Reykjanesskaga „og það er allt aðrar bergtegundir meira að segja hér norðar og á þessari tá sem Keflavíkurflugvöllur er á, Reykjanesbær og Suðurnesjabær.“

„Þar eru allt önnur jarðlög og allt aðrar bergtegundir. Við erum að reyna að koma þeim skilaboðum til þessara samstarfsaðila okkar verðandi,“ segir Kjartan Már.

Þær upplýsingar sem hann vilji koma á framfæri eru liður í því sem hann segir að öllum ætti að vera óhætt á þessum nyrðri hluta Reykjanesskagans.