Nýjast á Local Suðurnes

Par í gæsluvarðhaldi vegna gruns um gróf kynferðisbrot gegn ungum börnum

Lögreglan á Suðurnesjum rannsakar nú mikið magn tölvubúnaðar og myndefnis í eigu manns sem úrskurðaður hefur verið í gæsluvarðhald til 18. september næstkomandi vegna gruns um gróf kynferðisbrot gegn tveimur ungum börnum. Kona hans sætti einnig gæsluvarðhaldi vegna málsins í tvær vikur.

Lögreglan á Suðurnesjum verst allra fregna af málinu, en samkvæmt upplýsingum fréttastofu RÚV eru börnin á grunnskólaaldri og tengd fólkinu fjölskylduböndum. Brotin eiga að hafa verið ítrekuð og framin á umliðnu ári.

Fólkið var úrskurðað í gæsluvarðhald strax daginn eftir að lokinni skýrslutöku. Konan játaði þá þegar að þau hefðu bæði brotið gegn öðru barninu. Maðurinn gekkst við því í skýrslutöku níu dögum síðar að hafa brotið gegn sama barni. Konan sætti gæsluvarðhaldi í tvær vikur en var síðan sleppt.

Lögregla rökstuddi kröfu sína um gæsluvarðhald með því að það gæti valdið hneykslun í samfélaginu og sært réttarvitund almennings gengi hann laus. Héraðsdómur féllst á það með lögreglu að brot mannsins væru þess eðlis að gæsluvarðhald væri nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna.