Air Canada hefur sumarflugið
Kanadíska flugfélagið Air Canada hefur hafið sumarflug sitt milli Keflavíkurflugvallar og Toronto og Montreal á ný en flugfélagið flaug seinast til Íslands árið 2019. Flogið verður fjórum sinnum í viku til og frá Toronto og þrisvar sinnum í viku til og frá Montreal fram í október.
Isavia greindi frá þessu í tilkynningu, en fyrsta flug var til Montreal í gær og til Toronto í morgun. „Þetta eru mjög spennandi fréttir fyrir viðskiptavini okkar á Íslandi sem geta nú byrjað að skipuleggja sína næstu ferð til að enduruppgötva Kanada,“ er haft eftir Marc Sam, umsjónarmanni Íslandsflugs Air Canada í tilkynningunni.