Nýjast á Local Suðurnes

Aðventusvellið opnar

Um helgina bætist glæný og spennandi viðbót við Aðventugarðinn í Reykjanesbæ þegar Aðventusvellið verður tekið í notkun en það verður staðsett í skrúðgarðinum í Keflavík. Þar gefst fjölskyldum einstakt tækifæri til að upplifa saman gleðilegar stundir með hressandi útivist og hreyfingu. Til stendur að hafa svellið opið fyrir almenning frá laugardeginum 18. desember og fram í mars á næsta ári ef vel gengur. Það er Orkustöðin ehf. sem hefur tekið að sér reksturinn á svellinu í samstarfi við Reykjanesbæ.

Síðastliðið sumar fór fram hugmyndasöfnun á íbúavefnum Betri Reykjanesbær þar sem hugmyndin um ævintýralegt leiksvæði í skrúðgarðinum hlaut gott fylgi. Með tilkomu skautasvellsins má segja að sú hugmynd sé að raungerast og nú verði dálitlu ævintýri bætt við Aðventugarðinn.

Skautasvellið er 200 fermetrar að stærð og er umhverfisvænt þar sem það þarfnast hvorki raforku né vatns en svellið samanstendur af sérhönnuðum plötum sem hafa sömu eiginleika og venjulegur ís. Þá er einnig minni slysahætta á þessu svelli þar sem það gefur aðeins eftir ólíkt hefðbundnum ís.

Til stendur að skautasvellið verði opið fimmtudaga til sunnudags og þurfa gestir að bóka heimsókn á vefsíðunni adventusvellid.is eða í sérstöku appi sem verður klárt innan tíðar og nánar er hægt að kynna sér á vefsíðunni. Hægt verður að fá lánaða skauta eða koma með sína eigin svo framarlega sem þeir eru ekki með tönn. Stök ferð á svellið í 50 mínútur kostar 800 krónur. Á vefnum verður einnig hægt að versla áskriftir að skautasvellinu og geta áskrifendur þá skautað eins oft og þeir vilja eigi þeir bókaðan tíma. Þarna er því komin hugmynd að upplagðri jólagjöf í jólapakkann. Mánaðaráskrift fyrir einn kostar kr. 2500 og fyrir fjölskylduna kr. 5000. Þess má geta að þeir sem kaupa áskrift skauta frítt í desember. Allar nánari upplýsingar verður að finna á vefsíðunni adventusvellid.is