Nýjast á Local Suðurnes

Stökk í sjóinn eftir háskaakstur – Ók á 100 km hraða í gegnum íbúðagötu

Myndin tengist fréttinni ekki beint

Ökumaður, sem lögreglumenn á Suðurnesjum hugðust hafa tal af í vikunni, gaf allt í botn og sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglu. Hann ók á ofsahraða  á undan lögreglubílnum alllangan veg og endaði för sína á hafnarsvæðinu í Vogum þar sem hann stökk í sjóinn. Hann játaði ölvunarakstur.

Lögregla hugðist, við hefðbundið eftirlit á Reykjanesbraut, benda manninum á að hann æki án þess að hafa ökuljósin kveikt þegar hann gaf í. Honum var veitt eftirför og ók hann á köflum margfalt yfir leyfðum hámarkshraða, til dæmis á rúmlega 100 km hraða á Vogavegi þar sem hámarkshraði er 50 km og á 100 km hraða á Hafnargötu í Vogum þar sem hámarkshraði er 30 km.

Háskaakstrinum lauk á hafnarsvæðinu þaðan sem ökumaðurinn lagðist til sunds. Lögregla skipaði honum að koma í land sem hann gerði að lokum. Hann og farþegi sem var í bílnum með honum voru handteknir og færðir á lögreglustöð.