Nýjast á Local Suðurnes

Færri farþegar en í fyrra – 219 flugferðum aflýst

Farþegar sem fóru um Keflavíkurflugvöll í nýliðnum janúarmánuði voru 29,8% færri en á sama tíma í fyrra. Það er 6,6% minna en farþegaspá Isavia, sem birt var í desember, gerði ráð fyrir. Heildarfjöldi farþega var 375.723 í síðasta mánuði en 535.210 í janúar 2019.

Farþegar til og frá landinu voru 311.762 nú í janúar en 353.883 í janúar í fyrra. Það er fækkun um 11,9 prósent. Farþegaspá Isavia gerði ráð fyrir að þeir yrðu 319.527 talsins og er niðurstaðan því 2,4% fækkun frá því sem gert var ráð fyrir.

Skiptifarþegar í nýliðnum janúarmánuði voru 63.961 en í janúar í fyrra voru þeir 181.327. Farþegaspáin gerði ráð fyrir að þeim fækkaði niður í 82.607 þannig að niðurstaðan er fækkun um 64,7% frá í fyrra og um 22,6% frá því sem spáð var þar.

Ætla má að óveður í janúarmánuði hafi haft umtalsverð áhrif á þessa niðurstöðu. Átta daga í mánuðinum sköpuðust þannig veðuraðstæður að flugfélög, sem fljúga um Keflavíkurflugvöll, tóku þá ákvörðun að fresta, flýta eða aflýsa flugferðum vegna vindhraða og veðurofsa. 219 flugferðum var aflýst nú í janúar samanborið við 31 flugferð í janúar 2019.