Nýjast á Local Suðurnes

Orkan fyrst til að lækka verð á eldsneyti

Orkan á Fitjum er fyrst eldsneytisfyrirtækjanna til að lækka verð á eldsneyti í kjölfar undirskriftasöfnunar íbúa á Suðurnesum.

Lækkun á eldsneytisverði á Orkustöðinni Fitjum, Reykjanesbæ er svar við ákalli heimamanna og bæjarráðs við aðstoð á erfiðum tímum, segir í tilkynningu á Facebook-síðu hóps sem stóð fyrir undirskriftasöfnuninni.

“Eftir fund með forsvarsmönnum átaksins „ við krefjumst lægra eldsneytisverðs á Suðurnesjum“ og forsvarsmönnum Bæjarráðs ákváðum við að leggja okkar að mörkum á erfiðum tímum og lækka verðið á Fitjum um 5 kr. Ef heimamenn fá sér síðan Orkulykil þá geta þeir lækkað eldsneytisverð sitt enn frekar. Orkulykillinn gefur 10 kr afslátt pr líter og samtals eru þetta því lækkun um 15 kr pr. líter. Vonumst við til þess að þessi aðgerð verði til þess að létta undir með heimamönnum á erfiðum tímum.” Segir jafnframt í tilkynningu.

Verð á bensíni er nú 230 krónur á lítra á Fitjum og 216 krónur á lítra af dísel, án afslátta, en fyrirtækið býður 10 króna afslátt séu viðskiptavinir með Orkulykil. Verðið á höfuðborgarsvæðinu á sömu stöð er 205 krónur á lítra af bensíni og 199 krónur á lítra af dísel.