Nýjast á Local Suðurnes

Misstu aðstöðu fyrir hópferðabíla við FLE – Halda áfram að þjónusta flugfarþega

Myndin tengist fréttinni ekki beint

Gray Line mun halda áfram þjónusta viðskiptavini í ferðum til og frá flugvellinum, þrátt fyrir að fyrirtækið muni ekki halda þeirri aðstöðu sem það hefur í dag við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Þetta bókaði fulltrúi fyrirtækisins þegar tilboð í aðstöðuna voru opnuð.

“Þessir viðskiptavinir hafa í lang flestum tilfellum bókað og greitt fyrir ferðir sínar löngu áður en þeir stigu fæti inn í flugstöðina, í trausti þess að ferðakostnaður sé þeim hagstæður og sanngjarn. Fargjöld verða enn samkeppnishæfari en áður, enda kom skýrt kom fram í fyrirspurnasvörum útboðsins að ekki yrði reynt að koma í veg fyrir samkeppni, enda samrýmist það ekki lögum.” Segir meðal annars í bókuninni, sem finna má í heild sinni neðst í fréttinni.

Þrjú tilboð bárust í aðstöðuna, sem felst í stæðum fyrir hópferðabifreiðar utan við flugstöðina og söluaðstöðu inni í flugstöðinni. Kynnisferðir buðu best, eða 41,2% af veltu fyrirtækisins við akstur á flugfarþegum, Hópbílar áttu næst besta boð eða 33,33% af veltutölum og Grey line bauð 26,56%.

Bókun Grey line í heild sinni:

Fulltrúi Allrahanda Gray Line áréttar að útboð þetta felur ekki í sér einkaleyfi á reglubundnum ferðum til og frá flugstöðinni með ferðamenn sem um hana fara. Útboðið tekur til aðstöðu sem felur í sér “að rekstrarleyfishafar hafi greiðari aðgang að aðstöðunni, flugstöðinni og farþegum en aðrir aðilar sem bjóða upp á sambærilega þjónustu á svæðinu” – eins og skýrt kemur fram í fyrirspurnasvörum útboðsins. Gray Line mun halda áfram þjónusta viðskiptavini í ferðum til og frá flugvellinum. Þessir viðskiptavinir hafa í lang flestum tilfellum bókað og greitt fyrir ferðir sínar löngu áður en þeir stigu fæti inn í flugstöðina, í trausti þess að ferðakostnaður sé þeim hagstæður og sanngjarn.

Gjald það sem Gray Line bauð í þessu útboði var algjört hámark og rúmlega það sem eðlilegt gæti talist að leggja á sem kostnaðarauka fyrir viðskiptavini félagsins m.a. til að félagið hafi greiðari aðgang að sölu ferða innan flugstöðvarinnar, en sú sala er óverulegt hlutfall af heildarviðskiptum í flugstöðvarakstrinum.
Raungerist það að Gray Line missi aðstöðu þá sem félagið hefur á leigu í dag í og við flugstöðina, mun félagið engu að síður halda áfram að bjóða viðskiptavinum sínum sömu þjónustu og áður, í almennum stæðum flugstöðvarinnar. Fargjöld verða enn samkeppnishæfari en áður, enda kom skýrt kom fram í fyrirspurnasvörum útboðsins að ekki yrði reynt að koma í veg fyrir samkeppni, enda samrýmist það ekki lögum.