Hótel Keflavík og Bláa lónið tilnefnd til virtra verðlauna
Tvö fyrirtæki af Suðurnesjum eru tilnefnd til “World Travel Awards” en verðlaunaafhending fer fram á ítölsku eyjunni Sardaníu á laugardaginn. Verðlaunin eru ein þau þekktustu í ferðaþjónustunni og stundum kölluð „Óskarsverðlaun ferðageirans”.
Veittar eru viðurkenningar á hinum ýmsu sviðum en í flokki gististaða eru tilnefningarnar bundnar við lönd og munu tuttugu íslensk hótel bítast um verðlaun í sex flokkum, þetta kemur fram á vef Túrista.
Suðurnesjafyrirtækin sem tilnefnd eru að þessu sinni eru Hótel Keflavík sem er tilnefnt til verðlauna í flokknum “Besta hótelið” og Bláa lónið sem fær tilnefningu í flokknum “Besti dvalarstaðurinn”.
Í fyrra var það Radisson Blu Hótel Saga sem fékk gullið í flokki íslenskra viðskiptahótela og var jafnframt valið besti dvalarstaðurinn („Iceland´s leading resort”) á meðan Hótel Glymur þótti fremsta hönnunarhótelið. Reykjavik Residence Hotel og Grettisborg Appartments fengu verðlaun í flokki íbúðahótela.