Nýjast á Local Suðurnes

Leikskólinn Holt fékk Grænfánann afhentan í fjórða sinn

Leikskólinn fékk einnig ERASMUS styrk í tengslum við verkefni um lýðræði og læsi

Leikskólinn Holt í Innri Njarðvík fékk Grænfánann afhentan í fjórða sinn. Grænfáninn er umhverfisviðurkenning sem nýtur virðingar víða í Evrópu sem tákn um árangursríka fræðslu og umhverfisstefnu í skólum og er markmiðið meðal annars að bæta umhverfi skólans, minnka úrgang og tengja skólann við samfélag sitt, fyrirtæki og almenning.

Á sumarhátíð leikskólans sem haldin var á dögunum tilkynnti Kristín Helgadóttir leikskólastjóri einnig um Erasmus styrk sem skólanum hlotnaðist í tengslum við verkefnið “Through democracy to littaracy” sem er samstarfsverkefni fjögurra landa og gengur út á að vinna með börnum í öllu sem tengist lýðræði og læsi.

grænfaninn holt2

Kristín Helgadóttir leikskólastjóri tekur við Grænfánanum.

“Við ætlum að vinna skráningar þar sem við tökum myndir og skráum niður umræður og starfið með börnunum og rýnum síðan í þessar skráningar saman til að efla okkur og vinna betur og byggja ofaná þekkingu barnanna. Holt er stýriskóli verkefnisins þannig að allar skýrslugerðir og utanumhald er hér á Íslandi,” sagði Kristín Helgadóttir leikskólastjóri þegar Local Suðurnes sló á þráðinn til hennar.

“Löndin sem eru að vinna með okkur eru Pólland, Spánn og Slóvenia.  Við höfum verið að vinna með Póllandi og Spáni síðustu þrjú ár í Etwinning verkefni en vildum síðan bæta inn einu landi og völdum Slóveníu vegna þess að þar er skóli sem starfar samkvæmt Reggio Emilia eins og við og töldum við að það gæti eflt okkar skólastarf enn betur.” Sagði Kristín.

Etwinning verkefnið sem leikskólinn Holt tekur þátt í og stýrir hlaut verðlaun frá Evrópusambandinu fyrir rúmu ári síðan og var þeim Kristínu leikskólastjóra og Önnu Sofiu verkefnastjóra boðið til Brussel til að taka á móti verðlaununum og hitta annað skólafólk sem er að vinna vel að samskonar verkefnum.