Nýjast á Local Suðurnes

Samúel Kári til Valerenga – “Hentar okkar leikstíl mjög vel,” segir aðstoðarþjálfarinn

Keflvíkingurinn og leikmaður U21 árs landsliðs Íslands, Samúel Kári Friðjónsson hefur gengið frá samningum við norska úrvalsdeildarliðið Valerenga. Samúel Kári sem er tvítugur að aldri lék fjóra leiki með Keflavík í efstu deild áður en hélt til Reading árið 2013, þar hefur hann ekki fengið tækifæri með aðalliðinu en lék töluvert með unglinga- og varaliði félagsins.

Samningur Samúels Kára við Valerenga er til þriggja og hálfs árs, en norska liðið fylgdist vel með kappanum síðastliðinn vetur og eru menn þar á bæ ánægðir með að hafa náð samningum.

“Samúel er spennandi ungur leikmaður með mikla framtíðarmöguleika, sem hentar okkar leikstíl mjög vel,” Segir Morten Tandberg aðstoðarþjálfari liðsins á heimasíðu félagsins.

Yfirnjósnari liðsins, Igor Aase, hefur fylgst vel með Samúel Kára og tekur í sama streng og aðstoðarþjálfarinn.

“Samúel er spennandi leikmaður sem getur bæði skorað og gefið stoðsendingar, auk þess sem hann getur skilað góðri varnarvinnu. Auk þess á íslenska hugarfarið eftir að koma honum langt.”

Samúel Kári fær ekki leikheimild með félaginu fyrr en félagaskiptaglugginn í Noregi opnar þann 22. júlí næstkomandi en fram að því mun Samúel æfa með Valerenga og spila æfingaleiki með liðinu.