Yfir 200 manns boðið starf aftur hjá Airport Associates
Airport Associates mun bjóða 205 af þeim 315 starfsmönnum sem sagt var upp í síðustu viku nýjan ráðningarsamning. Sigþór Kristinn Skúlason, forstjóri félagsins, staðfesti þetta í samtali við mbl.is og segir að þetta hafi verið eina leiðin þar sem breytingarnar í kjölfar gjaldþrots WOW air hafi breytt vaktatöflum og starfshlutfalli.
„Það stóð alltaf til að ráða aftur fólk, það var vitað að stór hluti fengi boð um áframhaldandi stöf,“ segir Sigþór, en hjá félaginu starfa um 400 manns í dag. „Það er gjörbreyttur vinnutími og vaktir og í því felst að margir fá boð um minna starfshlutfall,“ segir hann og bætir við að með því að minnka starfshlutfall gefist þeim kostur á að bjóða fleirum að halda starfi sínu. „Með því viljum við minnka höggið,“ segir Sigþór.