Reykjanesbær tekur á móti 350 flóttamönnum

Reykjanesbær hefur skrifað undir samning við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið og Fjölmenningarsetur um samræmda móttöku flóttafólks. Sveitarfélagið mun samkvæmt samningnum taka á móti 350 manns.
Frá þessu er greint á vef stjórnarráðsins, en þar kemur fram að í kjölfar undirritunarinnar í Reykjanesbæ fundaði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra með bæjaryfirvöldum ásamt Guðmundi Inga og fulltrúum beggja ráðuneyta.
Ráðherrarnir funduðu jafnframt með bæjaryfirvöldum í Suðurnesjabæ og kynntu sér málefni fylgdarlausra barna á flótta.