Nýjast á Local Suðurnes

Enginn ráðherra úr Suðurkjördæmi – Páll Magnússon studdi ekki tillögu Bjarna

Enginn ráðherra í nýrri ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar kemur úr Suðurkjördæmi, en Sjálfstæðisflokkurinn fékk fjóra þingmenn kjörna í kjördæminu og Viðreisn einn.

Páll Magnússon, oddviti Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi, segist á Facebook-síðu sinni ekki hafa stutt tillögu Bjarna Benediktssonar, formanns flokksins, um ráðherra flokksins. Páll segir að hún hafi falið í sér lítilsvirðingu gagnvart Suðurkjördæmi þar sem flokkurinn hafi unnið sinn stærsta sigur í kosningunum.

Páll segir einnig að þessi ráðherraskipan hafi gengið í veigamiklum atriðum gegn því lýðræðislega umboði sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins hefðu áunnið sér í prófkjörum og síðan kosningum í haust.

Á Facebook-síðu Ásmundar Friðrikssonar kemur einnig fram gagnrýni á ráðherravalið, en í svörum á þeim vettvangi segist Ásmundur ætla að bíða og sjá hvernig skipan í nefndir og forsæti í þeim komi til með að líta út.