Þúsund farþegar hafa nýtt sér beint flug til Akureyrar
Í gær fór þúsundasti farþeginn með beinu flugi Flugfélags Íslands á milli Keflavíkurflugvallar og Akureyrar. Hinn heppni farþegi var Finnbogi Jónsson. Eiginkona Finnboga er sendiherra Íslands í Mokvu og búa þau þar en Finnbogi var á ferð til Íslands vegna vinnu. Starfsfólk Isavia tók vel á móti Finnboga og fékk hann blóm og gjafabréf frá 66°Norður. Flugleiðin nýja fer mjög vel af stað en einungis þrjár vikur eru síðan hún opnaði og ljóst að margir ferðamenn vilja nýta sér það að fara beint norður á land við komuna til Íslands.
Hlynur Sigurðsson framkvæmdastjóri viðskiptasviðs Keflavíkurflugvallar vonar að þessi nýja flugleið hjálpi til við að sýna flugfélögum áhugann á Norður- og Austurlandi.
„Það er frábært að sjá að þessi nýja tenging við Norðurlandið gangi svona vel. Það er greinilegt að hluti þeirra ferðamanna sem hingað koma vilja fara beint út á land eða nýta sér það að geta séð höfuðborgina á leiðinni til landsins en flogið svo heim frá Akureyri. Vonandi verður þetta líka til þess að hjálpa til við að sýna flugfélögum áhugann á Norðurlandi og Austurlandi hvað beint alþjóðlegt flug varðar.“