Óska eftir vitnum að árekstri á Reykjanesbraut
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu óskar eftir vitnum að umferðarslysi sem varð á Reykjanesbraut skammt austan við Kaplakrika, til móts við Setbergið. Þá hefur móðir ökumanns annars bílsins einnig óskað eftir því að vitni gefi sig fram og birt mynd af bifreiðinni sem sonur hennar ók.
Lögreglu barst tilkynning um slysið klukkan 10.20 síðastliðinn mánudag, 20. mars. Þar rákust saman Toyota Yaris, vínrauð að lit, sem ekið var vestur Reykjanesbraut og Peugeot Partner, hvít að lit, sem ekið var austur Reykjanesbraut. Yaris bifreiðin fór yfir á rangan vegarhelming með þeim afleiðingum að árekstur varð og hafnaði hún utan vegar.
Þeir sem urðu vitni að árekstrinum eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögregluna í síma 444 1000 en einnig má senda upplýsingar í tölvupósti á netfangið 0140@lrh.is eða í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.