Nýjast á Local Suðurnes

Uppsagnir hjá bílaleigum: “Offjárfesting í greininni og bílaleigubílar orðnir of margir”

Fjárfesting í nýjum bílaleigubílum mun dragast saman um 80% hjá ALP, sem rekur bílaleigurnar Avis og Budget, sé miðað við árið 2017 sem var metár í fjárfestingum á bílaleigubílum.

„Ég held að ég geti fullyrt fyrir greinina að nýfjárfesting á eftir að verða í sögulegu lágmarki sem þýðir að bílaflotinn eldist með tilheyrandi áhrifum á mengun og umferðaröryggi,“ segir Hjálmar Pétursson, forstjóri ALP í viðtali við Viðskiptablaðið.

Þá segir Hjálmar að útlit sé fyrir að starfsfólki muni fækka hjá bílaleigum, en starfsmönnum hjá bílaleigum ALP hafi fækkað um 20 miðað við fyrir ári og séu um 130 nú.

„Reksturinn hefur ekki gengið vel síðustu tvö ár með sterku gengi og hækkandi launum. Menn geta líka sagt að þetta sé bara gott. Það var offjárfesting í greininni og bílaleigubílar voru orðnir of margir. Það er eðli samkeppninnar að grisja út,“ segir Hjálmar. Þá séu margir áhyggjufullir vegna yfirstandandi kjaraviðræðna og hvaða áhrif nýir kjarasamningar geti haft.