Nýjast á Local Suðurnes

FöstudagsÁrni: Hvað gerist á Sirkussýningu fyrir fullorðna?

Ég var staddur í Borgarfirðinum um síðustu helgi ásamt hluta fjölskyldunnar. Við fórum víða og þar á meðal komum við að Hraunfossum. Þvílík náttúruperla sem er, án ef með þeim fallegri í íslenskri náttúru. Ég bað mág minn um að smella mynd af mér og móður minni með Hraunfossana í bakgrunn. Ég sem betur fer var fljótur að hugsa og passaði upp á það að mamma væri skrefi framar en ég á myndinni. Ég vil ekki vera sakaður um kvenfyrirlitningu með að vera framar á myndinni. Það er víst yfirgangur og karlremba samkvæmt umræðunni um þessar mundir.

Ótrúlegt hve leigubílstjórar eru viðskotaillir stundum. Aðstoðarmaður ráðherra má ekki stunda ólögleg viðskipti við bótaþega á skutlurum án þess að allt ætlar um koll að keyra. Að sjálfsögðu hafði ég gaman af, vanhugsað hjá aðstoðarmanninum þar sem mikil heift ríkir yfir skutlarasíðunni á facebook, og auðvitað er ég að grínast með að þar séu bótaþegar í svartri vinnu. En staðreyndin er að vísu sú, að leyfum til leigubílaaksturs hefur ekki verið fjölgað frá aldamótum. Ótrúleg staðreynd og leigubílstjórar á landinu eru einvörðungu rúmlega 500 talsins. Með alla íslendinga og alla ferðamennina sem leggja leið sína hingað. Þróunin í heiminum er ekki leigubílum hliðholl en hvernig á þessi grein að bjóða upp á sanngjarnt verð ef engin er samkeppnin.

Skemmtilegt að sjá að einkarekin heilsugæslustöð á Höfðanum í Reykjavík er að slá í gegn. Fólk úr öllum hverfum borgarinnar hafa skráð sig til leiks. Mikil gagnrýni er á rekstrarformið innan Samfylkingar og VG sem vilja auðvitað að allt sé ríkisrekið. Þegar þessir flokkar voru í ríkisstjórn samþykktu þeir niðurgreiðslu tannlækninga til barna og unglinga sem er einkarekin þjónusta. Þannig að eins og með margt hjá þessum flokkum þá fer það bara eftir vindáttinni hver afstaða þeirra er í málaflokkunum. En skoðunarkannanir sýna að ánægðustu viðskiptavinir heilsugæslna eru hjá þeim einkareknu.

Er ég sá eini sem hugsa með hryllingi yfir að vita af mávunum japlandi í fjöruborðinu í vesturbænum þegar dælt var úr þúsund Laugardalslaugum óhreinsuðum í fjöruborðið? Svo fljúga þeir saddir og sælir yfir borgarbúa með niðurgang. Ég hugsaði svo mikið um þetta að auðvitað var búið að skíta á bílinn hjá mér, það er þó jákvætt að límið er hætt að virka, annars gætu dömubindin dottið af himnum ofan. Já umhverfismálin hjá borginni eru í góðum farvegi,það á að rukka okkur umhverfissóðana fyrir nagladekkin.

Ég er að spá í þessum fullorðinssýningum hjá Sirkusi Íslands. Er þetta eitthvað fyrir einmanna miðaldra piparkarla eins og mig? Hvað gerist á sýningu fyrir fullorðna? Það er spurning að fjárfesta í miða, hver veit nema von sé á happy ending.

Góða helgi