Nýjast á Local Suðurnes

Vogar eina sveitarfélagið sem ekki tók þátt í Vináttu í verki

Sveitarfélagið Vogar var það eina á Suðurnesjum sem ekki tók þátt í að styrkja verkefnið Vinátta í verki með beinu fjárframlagi. Hjálparstarf kirkjunnar, Kalak og Hrókurinn standa að söfnuninni, sem var hrundið af stað eftir náttúruhamfarir í Grænlandi þar sem fjórir létust og fjöldi fólks missti heimili sín, og var ákveðið ú upphafi hennar að biðla til allra sveitarfélaga landsins um að leggja söfnuninni lið – Um 40 milljónir króna hafa safnast og er stærstur hluti þeirrar upphæðar frá sveitarfélögum um land allt.

Grindavíkurbær lagði söfnuninni til 250.000 krónur, Reykjanesbær 200.000 krónur og Sandgerðisbær 100.000 krónur. Ekki fengust upplýsingar um upphæð sem Garður lagði til söfnunarinnar fyrir birtingu fréttarinnar, en á heimasíðu Vináttu í verki kemur fram að sveitarfélagið hafi lagt til fjárstyrk.

Vogar eru því eina sveitarfélagið á Suðurnesjum sem ekki lögðu til fé í söfnunina, en bæjarráð hvatti íbúa sveitarfélagsins til þess að leggja söfnuninni lið.

Enn er hægt að styrkja Grænlendinga með því að leggja inn á reikning 0334-26-056200, kt. 450670-0499. Einnig er hægt að hringja í 907-2003 og leggja þannig til 2.500 krónur.