Nýjast á Local Suðurnes

Fall úr Pepsí-deild kemur við buddu Keflvíkinga – Á annan tug milljóna í tekjutap

Félög sem falla úr Pepsi-deild karla verða af hátt í 20 milljón króna tekjum í 1. deild á næstu leiktíð og talað hefur verið um að fallið hafi aldrei verið dýrara.

Félög sem falla missa af háum upphæðum fyrir sjónvarpsrétt og styrk frá UEFA. Auk þess er áhorfendasókn nokkru minni í 1. deild og þá verður ferðakostnaður deildarinnar í hærri kantinum á næsta ári þar sem þrjú lið frá Austfjörðum leika í fyrstu deild auk tveggja frá Akureyri.

Auglýsing: 50% afsáttur af völdum vítamínum!

Að sögn framkvæmdastjóra Leiknis sem fellur úr deildinni ásamt Keflavík er tekjutapið gríðarlegt en ætla má að tap félaganna verði á svipuðum nótum: „Við gerum ráð fyrir að það verði 15, 16 eða alveg upp í 20 milljónir sem við verðum af með því að fara niður í 1. deild, fyrir utan aukinn ferðakostnað í 1. deildinni á næsta ári,” segir Þórður Einarsson, framkvæmdastjóri Leiknis, í viðtali við RÚV.

Tap Keflvíkinga er þó mögulega töluvert meira en Leiknis þar sem félagið réðist í leikmannakaup undir lok félagsskiptagluggans í þeirri viðleitni að reyna að bjarga liðinu frá falli, en gera má ráð fyrir að aðgerðirnar hafi verið kostnaðarsamar fyrir félagið.