Nýjast á Local Suðurnes

Auka varúðarráðstafanir í Akurskóla

Stjórnendur Akurskóla hafa aukið við varúðarráðstafanir vegna Covid 19 veirunnar. Þannig hefur vatnsbrunnum í skólanum verið lokað og sjálfskömtun matar verið hætt.

Þetta kemur fram í tilkynningu á Facebook-síðu skólans, en þar kemur einnig fram að nokkrir einstaklingar úr nærumhverfi skólans séu í sóttkví, en að enginn þeirra sé sýktur. Þá kemur fram að vel sé fylgst með þeim einstaklingum sem tengjast skólanum.

Tilkynningin í heild sinni:

Ágætu foreldrar/forráðamenn

Þetta eru skrýtnir tímar sem við erum að upplifa þessa dagana og fordæmalausir.

Við í Akurskóla fylgjum öllum fyrirmælum Landlæknis og sóttvarnalæknis þegar kemur að Covid19. Eins og staðan er núna er enginn í nærsamfélaginu okkar sýktur en nokkrir í sóttkví sem fyrirbyggjandi aðgerð eftir utanlandsferðir á skilgreind áhættusvæði.

Nú hefur sjálfskömtun matar á vegum Skólamatar verið hætt og starfsmenn Skólamatar afgreiða mat úr hitaborði og starfsmenn skólans vatn, hnífapör og grænmeti úr grænmetisbar. Matseðlar verða endurskoðaðir og einfaldaðir.

Við höfum lokað vatnsbrunnum í skólanum og hvetjum foreldra til að senda þá nemendur sem vilja vatn á skólatíma með eigin brúsa, vel merkta nafni og árgangi. Brúsana er hægt að nota bæði í nesti og hádegismat.

Við höfum einnig lokað grilli og örbylgjuofnum og setjum ekki fram heitt vatn fyrir núðlur. Þannig drögum við enn frekar úr þeim flötum sem margir snerta. Vinsamlega virðið þetta og sendið nemendur með nesti sem krefst ekki notkunar á þessum hlutum þessar vikur sem þetta ástand mun vara.

Það er mikilvægt að fara að fyrirmælum en einnig að halda ró okkar og muna að flestir sem veikjast af þessari veiru fá mjög væg einkenni. Þessar varúðunarráðstafanir eru gerðar til að forðast að margir sýkist í einu ef einstaklingum með sýkingu fjölgar í samfélaginu.

Við munum kappkosta að halda ykkur öllum vel upplýstum og ef til til frekari aðgerða kemur upplýsum við ykkur jafnóðum um slíkt.

Ég ítreka aftur að enn hefur enginn í okkar nánasta umhverfi hefur sýkst og við fylgjumst vel með þeim sem tengjast skólanum.