Nýjast á Local Suðurnes

Hefðu sett Víkingaheima í þrot

Líklegt er að stjórn rekstrarfélags Víkingaheima hefði krafist gjaldþrotaskipta á félaginu, hefði ekki komið til sölu félagsins til núverandi rekstraraðila, enda félagið ógjaldfært án frekari lánveitinga af hálfu sveitarfélagsins. Þetta kemur fram í svari við fyrirspurnum minnihluta bæjarstjórnar Reykjanesbæjar varðandi söluna.

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins hafa lýst yfir óánægju með söluna og þá sérstaklega þá aðferð sem notuð var við að selja hlutafé félaganna Útlendings og Íslendings og komast þannig hjá því að gefa kaupverðið upp. Bæjarfulltrúar meirihluta hafa hinsvegar haldið því fram að söluverðið sé trúnaðarmál að beiðni kaupanda þar sem um viðskiptahagsmuni sé að ræða.

Hér fyrir neðan má finna spurningar minnihluta og svör meirihluta:

Sjálfstæðisflokkurinn lagði fram tvær spurningar er varða sölu á Víkingaheimum á síðasta bæjarstjórnarfundi.
Fyrri spurningin sneri að því hvort mat hefði verið gert á hagsmunum þess fyrirtækis eða lögaðila af því að upplýsingum um kaupverð á Víkingaheimum sé haldið leyndum andspænis þeim hagsmunum að upplýsingarnar séu aðgengilegar almenningi og þar með gerðar opinberar. Reykjanesbær ber fyrir sig í þessu sambandi 9. gr. upplýsingalaga um heimild á takmörkun á upplýsingarétti til almennings.
Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjanesbæ ítrekar að ákvæðið 9. gr. upplýsingalaga undanþiggur ekki almennt aðgang almennings að upplýsingum um einkamálefni fyrirtækja þar sem reglan er afmörkuð við mikilvæga fjárhags eða viðskiptahagsmuni þessara aðila. Það er skýrt af greinargerð með frumvarpi því er varð að upplýsingalögum nr. 140/2012 og fjölda úrskurða úrskurðarnefndar upplýsingamála að þetta mat þarf að fara fram og við það mat þarf að skoða hvort umræddar upplýsingar sem óskað er aðgangs að varði svo mikilvæga hagsmuni að ætla megi að þær séu til þess fallnar að valda fyrirtækjum eða lögaðilum sem þær varða tjóni ef þær yrðu gerðar opinberar. Þessari fyrirspurn er ekki svarað og því spyrjum við aftur, fór fram mat á því hvort svo mikla fjárhags- og viðskiptahagsmuni sé að ræða að það réttlæti leynd á kaupverði?

Seinni spurningin sneri að því hvort Víkingaheimar voru auglýstir til sölu árið 2015. Svo virðist ekki vera samkvæmt svari heldur var einungis auglýst eftir rekstraraðilum. Við í Sjálfstæðisflokki bendum á að það er grundvallarregla í íslenskri stjórnsýslu að gæta jafnræðis milli borgaranna og almennt við úthlutun opinberra gæða er gerð sú krafa að stjórnvöld auglýsi eignir og jarðir opinberlega þannig að þeir sem áhuga hafa fái sama tækifæri til að gera kauptilboð í fasteignir eða jarðir. Við spyrjum því hvort Reykjanesbær telji sig hafa heimild til þess að selja Víkingaheima og án auglýsinga án þess að virða jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga ?

Svör við spurningum bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

i.

Eins og fram kom í samantekt starfsmanna sveitarfélagsins við spurningu bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokk á 604. fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, sem lesin var upp á 605. fundi bæjarstjórnar þann 16. febrúar sl., óskaði kaupandi félagsins eftir því við stjórn félagsins að innihalda samninganna yrði ekki gert opinbert. Stjórn félagsins ákvað að verða við þeirri beiðni.
Eins og getið var um í fyrra svari hefur stjórn borist beiðni um afhendingu kaupsamningsins og hefur hún hafnað þeirri beiðni með vísan til þess að hér eru á ferðinni fjárhags- og viðskiptaupplýsingar lögaðila, sbr. 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Áður en erindinu var svarað fór fram mat af þeim toga sem vísað er til í fyrirspurn bæjarfulltrúa. Stjórn taldi að á ferðinni væru viðkvæmir fjárhags- og viðskiptahagsmunir kaupandans, enda liggur það í hlutarins eðli að framundan eru viðræður eigandans við lánveitendur og kröfuhafa vegna erfiðrar skuldastöðu félagsins. Þá skal það áréttað að fyrir lá afdráttarlaus afstaða kaupanda, um að innihald samninganna yrði ekki gert opinbert. Með vísan til þessa taldi stjórn að hún gæti ekki einhliða aflétt trúnaði.

ii.

Í spurningunni er réttilega vísað til þeirrar grundvallarreglu í íslenskri stjórnsýslu að gætt sé jafnræðis milli borgaranna við úthlutun opinberra gæða og gerð sú krafa að stjórnvöld auglýsi eignir og jarðir opinberlega. Þess hefur verið vandlega gætt á undanförnum misserum að fasteignir sveitarfélagsins séu auglýstar með áberandi hætti þannig að áhugasömum kaupendum sé gefinn kostur á að gera tilboð.
Hér er hins vegar á ferðinni sala á hlutabréfum í einkahlutafélagi sem er dótturfélag einkahlutafélags sem sveitarfélagið er eigandi að. Ákvarðanir stjórnar félagsins sem hélt á seldu hlutafé um sölu ber að skoða með hliðsjón af erfiðri fjárhagsstöðu félagsins og alvarlegs skuldavanda. Eins og áður hefur komið fram var það einn af valkostum stjórnar að krefjast gjaldþrotaskipta, enda félagið ógjaldfært án frekari lánveitinga af hálfu sveitarfélagsins.
Þrátt fyrir framangreindar forsendur, sem taka ber með í reikninginn, þá telur stjórn að hún hafi uppfyllt skyldur sveitarfélagsins með því að birta áberandi auglýsingu í Víkurfréttum og Fréttablaðinu þar sem óskað var eftir áhugasömum samstarfsaðilum. Sú aðferð og orðalag, að auglýsa eftir samstarfsaðilum þar sem hvort tveggja kom til greina að leigja eða selja eignina, var ákveðin í samvinnu við þáverandi bæjarlögmann.