Yfir 25% vilja íbúakosningu vegna kísilvers

Þjóðskrá hefur lokið sinni yfirferð á undirskriftum er safnað var til þess að krefjast íbúakosningar um breytingar á deiliskipulagi vegna fyrirhugaðs kísilvers Thorsil. Samtals skrifuðu 2.697 einstaklingar undir kröfuna um íbúakosningu en það gera 25,3% af atkvæðabærum einstaklingum í Reykjanesbæ. Reykjanesbær gerir kröfu um að 25% íbúar bæjarfélagsins skrifi undir slíka söfnun til þess að íbúakosningar geti farið fram.
Þjóðskrá hefur nú sent rafrænt bréf til allra þeirra sem skrifuðu undir til staðfestingar. Þeir sem tilheyra þeim hópi geta nálgast rafræna bréfið í pósthólfinu sínu á vefnum Ísland.is. Undirskriftunum var safnað bæði rafænt á Ísland.is sem og á pappír.