sudurnes.net
Auka varúðarráðstafanir í Akurskóla - Local Sudurnes
Stjórnendur Akurskóla hafa aukið við varúðarráðstafanir vegna Covid 19 veirunnar. Þannig hefur vatnsbrunnum í skólanum verið lokað og sjálfskömtun matar verið hætt. Þetta kemur fram í tilkynningu á Facebook-síðu skólans, en þar kemur einnig fram að nokkrir einstaklingar úr nærumhverfi skólans séu í sóttkví, en að enginn þeirra sé sýktur. Þá kemur fram að vel sé fylgst með þeim einstaklingum sem tengjast skólanum. Tilkynningin í heild sinni: Ágætu foreldrar/forráðamenn Þetta eru skrýtnir tímar sem við erum að upplifa þessa dagana og fordæmalausir. Við í Akurskóla fylgjum öllum fyrirmælum Landlæknis og sóttvarnalæknis þegar kemur að Covid19. Eins og staðan er núna er enginn í nærsamfélaginu okkar sýktur en nokkrir í sóttkví sem fyrirbyggjandi aðgerð eftir utanlandsferðir á skilgreind áhættusvæði. Nú hefur sjálfskömtun matar á vegum Skólamatar verið hætt og starfsmenn Skólamatar afgreiða mat úr hitaborði og starfsmenn skólans vatn, hnífapör og grænmeti úr grænmetisbar. Matseðlar verða endurskoðaðir og einfaldaðir. Við höfum lokað vatnsbrunnum í skólanum og hvetjum foreldra til að senda þá nemendur sem vilja vatn á skólatíma með eigin brúsa, vel merkta nafni og árgangi. Brúsana er hægt að nota bæði í nesti og hádegismat. Við höfum einnig lokað grilli og örbylgjuofnum og setjum ekki fram heitt vatn fyrir núðlur. [...]