Nýjast á Local Suðurnes

FöstudagsÁrni hefur af nægu að taka – Píkur, Eurovision og Leoncie

Ríkissjónvarpið fær fullt hús stiga fyrir umgjörð, útsendingu, hljóð og mynd á úrslitakvöldinu í Eurovision síðastliðið laugardagskvöld. Ég skemmti mér vel, erlendu sykurpúðarnir skemmdu ekki stemminguna og sigurlag Svölu var í uppáhaldi. Aron Hannes var líka mér kær í þessu og átti von á að hann kæmist lengra. En þegar vel gengur er bara fundið eitthvað annað til að skyggja á það góða. Að þessu sinni hefur samfestingurinn hjá Ragnhildi Steinunni verið bitbein vikunnar. Glamor staðhæfir að um stolna hönnun sé að ræða. Jú staðreyndin er sú að hönnuðir á ýmsum sviðum búa við stuldur. Við getum keypt falsaða hönnun á aliexpress.is eins og til að mynda Kartel lampa og margvíslega íslenska hönnun líka. Þá er víst hægt að fá 66 gráður norður úlpu á hreint ótrúlegu verði, það er varla að það taki því að setja inn kreditkortanúmer svo lágt er verðið miðað við það sem við borgum fyrir þessar kínversku vörur. En það er nú þannig að RÚV hefði getað vafið Ragnhildi í ruslapoka, hún er alltaf jafn glæsileg, sama hvaða dress verður fyrir valinu, enda keflvísk fegurðardrotting þessi elska.

arni arna keflavikurn

Leonice er mætt aftur til Keflavíkur og í vikunni var hún í miklu stuði. Hópferðabifreið bakkaði inn á götuna hennar sem er einstefnugata og hringdi indverska prinsessan alls fjórtán sinnum í fyrirtækið. Það óð víst svo á henni að hún var vinsamlegast beðin um að senda tölvupóst. Það gerði hún og sakaði eigandann um að vera tuddi, rasisti og geðsjúkan. Það má með sanni segja að indverska prinsessan sem kvaddi klakann fyrir skemmstu fyrir ávinninga í pólitík í heimalandinu sínu hafi farið fýluferð. Þetta er ekki í fyrsta skiptið og örugglega ekki það síðasta sem hún hefur yfirgefið klakann með yfirlýsingargleði, en það er alltaf gott að fá hana aftur. Hún litar samfélagið, maður glottir við tönn og reynir að læra af henni hvernig maður á ekki að eiga samskipti við annað fólk.

Mikið er ég glaður að búið sé að leysa úr allri slysahættu í Silfru. Það var fundað heila helgi og málið leyst. Fækkað um tvo kafara í hverjum hópi, úr átta niður í sex og áður en ferðamenn fara í þurrbúninginn verða þeir að svara til um heilsufarsástand sitt. Þetta er auðvitað búið að leysa alla hættu og er virkilega fyrirbyggjandi aðgerðir sem skila. Það fær engin hjartaáfall í ísjökulköldu vatninu eftir að hafa svarað nokkrum spurningum á blaði, er það nokkuð?

Hræðilegt ástand á Selfossi, það er svo leiðinlegt þar að unglingar hella yfir sig bensíni og kveikja í sér. Þetta gerðist núna í vikunni og þvilík heppni að ekki hlaust skaði af. Afsökun unglingsins var einmitt sú að Selfoss sökkar. Ég hélt að allir færu bara í bíó hjá Axeli vini mínum og svo er nú KFC þarna líka. Hvað vilja þessir unglingar í dag? Þarna liggja tækifæri í afþreyingu i sveitinni fyrir þá sem eru glöggir á viðskiptatækifæri og fengi örugglega stuðning frá bæjarfélaginu sem hlýtur að taka því alvarlega þegar unglingar eru farnir að bera eld að sjálfum sér vegna leiðinda í bæjarfélaginu.

Nick Turner, listamaður glímir greinilega ekki við minnimáttarkennd. Hleypur um íslenska náttúru með hestum, nakinn. Það getur varla litið vel út fyrir meðalmanninn að veifa töfrasprotanum innan um íslensku folana. Við munum svo sannarlega eftir því að Unnur Steinson, fyrrum fegurðardrotting átti fullt í fangi með að handleika hestareðurinn á sínum tíma. En auðvitað snýst þetta um að vera sáttur við Guðsgjöf, sama hversu stórt eða lítið fólst í úthlutuninni við sköpunina í móðurkviði. Myndbands-listaverkið hans Nicks er samt sem áður flott og íslensk náttúra í allri sinni mynd nýtur sín og er góð landkynning.

Vegna þekkingarleysis og skorti á áhuga mun ég ekki útlista frekar píkuumræðuna í vikunni. Ég horði á myndband þar sem fólk tjáir sig um þetta líffæri, en ég var nú engu nær, nema að þú ert að svíkja sjálfan þig með því að gera þér upp fullnægingu án þess að fá það. En hvað um það, læt aðra um að spá í þessu líffæri kvenna.

Ég fagnaði þegar Ragnar Þór Ingólfsson sigraði formannskjörið í VR. ASÍ er að mínu viti eins og íslensk mafía sem þarf að brjóta niður og koma valdinu til félagsmanna. Í áratugi hefur sama fólkið stjórnað og endurnýjun með breyttum áherslum á ekki upp á pallborðið. Ragnar boðar nýja tíma, verkalýðsforingjar á háum launum semja fyrir almenning, þykjast vera harðir en skrifa undir samninga sem enginn er sáttur við. Verkalýðsfélög eru orðin hálfgerð tímaskekkja sem þarf að taka í gegn og aðlaga samtímanum.

Verðvernd Elko hefur verið breytt og virkar nú innan verslunarinnar. Hvernig getur það virkar neytendum? Hey ég keypti þetta sjónvarp en svo fann ryksugu sem er ódýrari. Hræðslan við samkeppnina sem skellur á íslenskum markaði í maí með komu Costco er farin að taka á sig mynd. Það eru margir kaupmenn komnir á skjálftavaktina, enda bíður almenningur spenntur. Ég giska að ekki verði hægt að fara í Castco fyrr en líða fer á sumarið. Þetta verður eins og þjóðhátíð. Fyrst að fólk stendur í röðum heilu og hálfu sólarhringana vegna leikjatölvu á afslætti eða strigaskóm, þá verður eitthvað að fylgjast með þessum látum. Ég vona að þetta færi okkur eðlilegri samkeppni og lækkað vöruverð, ekki veitir af. Kæmi ekki á óvart að einhverjir leggi bílum sínum við bensíndælurnar nokkrum dögum fyrr og taki strætó heim.