Nýjast á Local Suðurnes

Vill að Reykjanesbær taki á móti öllum flóttamönnum – “Úr takti við raunveruleikann”

Ljósmynd: Reykjanesbær.is / OZZO

Formaður allsherjar- og menntamálanefndar, Bryndís Haraldsdóttir, kallar eftir því að flóttafólk fái að dvelja saman á ákveðnu svæði fyrstu vikur þeirra eða mánuði á Íslandi. Hún vill ekki tala um úrræðið sem flóttamannabúðir en lítur sérstaklega til Reykjanesbæjar í þessu samhengi. 

„Sumir kynnu að kalla þetta flóttamannabúðir en þetta eru búsetuúrræði þar sem líka er verið að veita nauðsynlega heilbrigðisþjónustu, félagsráðgjöf, það er leikskóli og það er skóli og það er haldið utan um þetta fólk,“ segir Bryndís. Hún segir þetta úrræði geta haft marga kosti. 

„Þetta er ekki síður til þess að vernda þennan viðkvæma hóp því við sjáum líka skelfilegar fréttir af því að það sé verið að hagnýta sér neyð þessara aðila sem hingað eru að flýja og óska eftir vernd,“ segir hún.  Þá felist í úrræðinu sömuleiðis skólaganga fyrir börn á flótta. 

„Eins og hér, okkur er sagt að bara einn daginn birtist börn bara í hverfisskólunum og skólarnir sjálfir hafa ofboðslega litlar bjargir til að bregðast við.“  Segir Bryndís í viðtali við RÚV.

Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar, segir þingkonuna vera úr takti við raunveruleikann, í færslu á Facebook. Friðjón segir Reykjanesbæ taka á móti flestum flóttamönnum án sérstaks stuðnings frá ríkisinu, auk þess sem fjárframlög, meðal annars til heilbrigðismála á svæðinu hafa verið lækkuð. Í færslunni, sem sjá má í heild hér fyrir neðan, segir Friðjón einnig að nú þurfi önnur sveitarfélög að stíga upp og taka ábyrgð.

Bryndís Haraldsdótir, þingmaður, virðist ekki vera í takt við raunveruleikann þessa dagana. Á meðan Reykjanesbær tekur hlutfallslega á móti flestum flóttamönnum á Íslandi án sérstaks stuðnings frá ríkinu. Núna eru innviðir í Reykjanesbæ komnir að þolmörkum vegna þessa en á sama tíma eru fjármagn að lækka til HSS m.a. Um 29% íbúa Reykjanesbæjar eru af erlendum uppruna. Er ekki kominn tími til að Bryndís vakni og sjá raunveruleikann í dag. Reykjanesbær hefur borið hita og þungan í þessu verkefni og því miður án stuðnings eða samráðs frá ríkinu. Ekki meir af svona vitleysu, hingað og ekki lengra. Nú þurfa önnur sveitarfélög að stíga fram og taka ábyrgð. Og Bryndís, betra væri að þú heyrðir fyrst í heimamönnum í Reykjanesbæ áður en þú kemur fram með svona hugmynd.

Með kveðju
Friðjon Einarson, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar.