Nýjast á Local Suðurnes

Einfalt og hollt – Fiskur og franskar á 20 mínútum!

Það þarf ekkert að vera of flókið að elda fisk og franskar fyrir fjölskylduna, en með því að nota uppskriftina hér fyrir neðan ætti holl og góð máltíð að vera klár á diska á um tuttugu mínútum.

Uppskriftin miðast við fjóra og til að tryggja ferskleika og gæði er um að gera að nýta sér þjónustuna hjá Fiskbúð Reykjaness, en þar er boðið upp á nýveiddan þorsk eða ýsu og kartöflur sem hentar uppskriftinni fullkomlega.

Kartöflur

  • 6-8 meðalstórar kartöflur
  • 4 msk olía
  • salt og pipar

Hitaðu ofninn í 180°C og skerðu kartöflurnar í sneiðar og síðan í strá, um sentimetra þykk. Settu í skál og helltu olíunni yfir, stráðu salti og pipar yfir og blandaðu vel. Settu á bökunarpappír og bakaðu í 18-20 mínútur. Gott er að hrærs aðeins í kartöflunum eftir um það bil helming tímans.

Fiskur

  • 600-700 gr þorskur eða ýsa
  • 50 gr hveiti
  • 50 gr maísmjöl
  • 1/2 tsk cayenne pipar
  • 1/2 tsk paprika
  • salt og pipar
  • 1 tsk lyftiduft
  • 1 eggjahvíta
  • 135 ml kalt vatn
  • olía til djúpsteikingar

Byrjaðu á að hita olíuna. Þú getur notað pott á eldavél við mikinn hita, en best er að nota djúpa Wok-pönnu.

Skerðu fiskinn í þokkalega stóra bita og leggðu til hliðar á eldhúspappír. Gott getur verið að slá létt á fiskinn með pappírnum þannig að hann verði þurr.

Blandaðu saman öllum þurrefnum og kryddi í skál. Hrærðu eggjahvítuna þar til hún verður froðukennd (í sér skál.) Hafðu vatnið kalt og helltu rólega út í þurrefnablönduna og hrærðu rólega í blöndunni á meðan. Nú má bæta eggjahvítunni við blönduna og hræra rólega, rétt til þess að allt blandist vel saman.

Dýfðu fiskibitunum í deigið og settu út í olíuna og steiktu þar til bitarnir eru gullinbrúnir. Taktu þá upp úr og láttu renna af þeim á pappírsþurrku.

“Holl” kokteilsósa

8 msk Lífræn tómatsósa
8 msk létt majóness
Örlítið chillimauk eða chillikrydd (hrærið saman og smakkið til)