Risi í veitingasölu á flugvöllum opnar stað á KEF

SSP, alþjóðlegt fyrirtæki, sem sérhæfir sig í rekstri veitingastaða á flugvöllum hefur opnað veitingastaðinn Elda á Keflavíkurflugvelli. Á meðal þess sem verður í boði á Elda er trufflu hamborgari, fiskur og franskar, kjötsúpa og bleikjusalat, svo dæmi séu tekin, auk léttari matar á morgnanna.
Í tilkynningu á vef Isavia segir að lögð verði áhersla á gæði og gott hráefni á staðnum. Maturinn verður ferskur og fjölbreyttir kostir verða í boði fyrir alla aldurshópa. Þá kemur fram að Ísey skyrbar verði inni á staðnum sem verður alltaf opinn með ferskar skálar. Og fyrir þau sem eru á hraðferð verður ávallt gott úrval tilbúinna rétta til að grípa með sér.
Mikil spenna og eftirvænting er fyrir staðnum, samkvæmt tilkynningunni.
„Við erum virkilega stolt af matnum á Elda sem er gerður úr gæðahráefni. Þetta eru mikið til klassískir réttir en með íslensku hráefni. Svo leggjum við auðvitað mikið upp úr því að koma til móts við fjölbreytta hópa, við verðum til dæmis með frábæra hraðþjónustu fyrir þau sem liggur á. Þá verðum við með flotta grænmetis- og veganrétti og virkilega metnaðarfullan barnamatseðil. Við hlökkum mjög til að kynna Elda fyrir flugvallargestum“, segir Jón Haukur Baldvinsson, rekstrarstjóri SSP á Íslandi í frétt Isavia.
SSP á og rekur yfir 2.500 staði víða um heim, segir jafnframt.
