Nýjast á Local Suðurnes

Tólf tíma tónlistarveisla við Kleifarvatn á laugardag – Gusgus stígur á svið

Margir af helstu raftónlistarmönnum landsins koma fram á tónlistarhátíðinni Taktfakt sem fram fer um þessar mundir í Reykjavík og á Reykjanesi. Má þar helst nefna Gusgus, Thor, Áskell og LaFontaine. Hátíðin hófst á fimmtudag með tónleikum á Kex Hostel og líkur á sunnudag með heljarinnar eftirpartýi á skemmtistaðnum Paloma.

Rúsínan í pylsuendanum á þessari raftónlistarveislu verður á laugardagskvöldið þar sem fólki gefst tækifæri á að skella sér upp í rútu, á vegum tónleikahaldara og keyra út á Reykjanes, nánar tiltekið að Kleifarvatni, þar sem bíður tólf tíma matar- og tónlistarveisla. Dagskráin við Kleifarvatn er virkilega glæsileg en skellt verður upp sérstakri Pop up veitingasölu í samstarfi við Kex Hostel og Linneu Hellström/Oumph.

Það verða listamennirnir í K-Hand, GusGus, Thor, Ohm, Hunk Of A Man, LaFontaine, Áskell, Octal Industries, Orang Volante, ThizOne, Hidden People, NonniMal og Mr.Cold, sem munu stíga á svið við Kleifarvatn.

taktfakt

Mikil leynd hefur verið um nákvæma staðsetningu hátíðarinnar við Kleifarvatn en þessa mynd birtu forsvarsmenn hátíðarinnar af undirbúningnum

Miðaverðið á hátíðarhöldin við Kleifarvatn er rétt um 100 evrur eða tæplega 14.000 krónur, innifalið í því er miði á hátíðina, akstur á svæðið og tólf tíma tónlistarveisla.

Hægt er að nálgast miða á Resident Advisor einnig er hægt að afla sér frekari upplýsinga á Kaffi Vínyl á Hverfisgötu.

kleifarvatn

Tónlistarhátíðin fer fram í einstaklega fallegu umhverfi við Kleifarvatn