Nýjast á Local Suðurnes

Varðskip til taks við Grindavík

Starfsfólk Landhelgisgæslunnar hefur haft í nógu að snúast líkt og aðrir viðbragðsaðilar vegna eldgoss sem hófst norður af Grindavík á ellefta tímanum í gær.

Um leið og stjórnstöð Landhelgisgæslunnar fékk tilkynningu um að eldgos væri hafið var þyrluáhöfn kölluð út til að fljúga með þrjá vísindamenn svo unnt væri að meta umfang eldgossins, lengd sprungunnar og hraunflæði, segir í tilkynningu.

Varðskipinu Þór, sem var á siglingu undan Sandgerði, var þegar beint til Grindavíkur og var komið þangað um miðnæturbil. Að beiðni aðgerðarstjórnar á Suðurnesjum verður Þór áfram til taks við Grindavík þar til annað verður ákveðið.

Séraðgerðasveit Landhelgisgæslunnar var send á öryggissvæðið á Keflavíkurflugvelli til stuðnings við starfsemi varnarmálasviðs.

Vitað var um eitt fiskiskip í höfn í Grindavík, línuskipið Fjölni GK, og í samráði við útgerðina Vísi hf. og lögreglustjórann á Suðurnesjum ákveðið að ferja það frá Grindavík. Áhöfn skipsins var staðsett á höfuðborgarsvæðinu og sá séraðgerðasveit Landhelgisgæslunnar um að ferja áhöfnina um Krýsuvíkurleið og Suðurstrandarveg til Grindavíkur. Þá var áhöfnin á v/s Þór til taks ef þörf væri á aðstoð. Skipið hélt frá Grindavík laust eftir klukkan fimm.

Á fimmta tímanum í nótt fór áhöfnin á TF-EIR aftur í vísindaflug með fjóra vísindamenn yfir umbrotasvæðið. Þyrlan lenti aftur í Reykjavík klukkan 5:30. Þá voru tveir starfsmenn Landhelgisgæslunnar í samhæfingarstöð almannavarna í Skógarhlíð í nótt.

Myndir: Facebook / Landhelgisgæslan