Nýjast á Local Suðurnes

Sex milljónir til Duus

Duus Safnahús hlutu 6 milljóna króna styrk úr Barnamenningarsjóði sem var annar hæsti styrkurinn sem veittur var í þetta sinn.

Verkefnið sem hreppti styrkinn ber yfirskriftina Söfn fyrir börn en markmið þess er að öll börn í sveitarfélaginu fái jafna möguleika á að kynnast því sem söfnin hafa upp á að bjóða í listum, sögu og menningu. Styrkurinn hefur mikið gildi fyrir starfsemi Duus Safnahúsa sem mun gera kleift að börnin fá notið faglegrar leiðsagnar sérstaks fræðslufulltrúa, sem að auki hefur það verkefni að sækja í hús hópa í viðkvæmri stöðu, íbúa af erlendum uppruna og fólk í starfsendurhæfingu til að auka líkur á að þau sæki þangað sjálf með börn sín.

Guðlaug María Lewis menningarfulltrúi Reykjanesbæjar, sem veitti styrknum viðtöku fyrir hönd Duus Safnahúsa, segir að umsóknin hafi tekið mið af stefnu Reykjanesbæjar þar sem ein af sex stefnuáherslum er „börnin mikilvægust,“ sem og heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um aukinn jöfnuð, menntun fyrir alla og heilsu og vellíðan. Það hafi því verið einkar ánægjulegt að styrkurinn hafi hlotist og færir hún sérstakar þakkir til Barnamenningarsjóðs og úthlutunarnefndar fyrir hönd Reykjanesbæjar.