Nýjast á Local Suðurnes

Maciej Baginski í Njarðvík – Daníel Guðni áfram við stjórnvölinn

Maciej Baginski samdi í dag Körfuknattleiksdeild Njarðvíkur, til tveggja ára, en hann lék með Þór Þorlákshöfn á síðasta tímabili og var valinn mikilvægasti leikmaður Þórsara á lokahófi félagsins á dögunum.

Í tilkynningu frá Njarðvíkingum kemur fram að þar á bæ fagni menn komu Maciej sem mun án nokkurs vafa láta vel til sín taka á heimavellinum en hann var með 14,9 stig og 4,1 frákast að meðaltali í leik með Þór á síðustu leiktíð.

Friðrik Pétur Ragnarsson formaður KKD UMFN sagði við ráðninguna að Maciej væri mikilvægt púsl í spili Njarðvíkinga.

„Við vitum öll hvers hann er megnugur og fögnum því að fá okkar mann aftur heim í Njarðvík. Línur er að skýrast með leikmannahópinn okkar fyrir komandi tímabil en stjórn hefur haft nóg fyrir stafni upp á síðkastið.“

„Ég er mjög ánægður með að vera kominn aftur heim í Njarðvík. Tími minn hjá Þór var lærdómsríkur en Njarðvík er mitt uppeldisfélag og ég vil fyrir alla muni taka þátt í því að færa félagið í fremstu röð á nýjan leik,“ sagði Maciej Baginski við undirritun samninga í dag.

Þegar hefur verið framlengt við Loga Gunnarsson og Vilhjálm Theodór Jónsson og þá mun Daníel Guðni Guðmundsson stýra liðinu sitt annað tímabil.