Nýjast á Local Suðurnes

Jólageit IKEA og Biluð Bónusvigt rata í föstudagspistil Árna Árna

Föstudagspistillinn þessa vikuna – ég minni á að pistlarnir eru skrifaðir í hálfkæringi bara til lyfta aðeins upp á tilveruna en ekki til þess gerðir að eiga í orðaskaki – á meðan einhver hefur gaman af þá er ég bara glaður með það:)

Í vikunni var fjarlægð vigt úr Bónus verslun, en hún var fundin sek fyrir að ýkja þyngd. Í gleði minni fór ég með látum í Elkó með baðvigtina mína, kastaði henni á borðið enda greinilegt að kvikindið hefur logið að mér í langan tíma. Eftir að hafa reynt að sanna mál mitt með að prófa nokkrar tegundir í versluninni var ég rekinn aftur heim með gamla draslið. Hvar er neytendaverndin í þessu landi segi ég nú bara. Ég fleygði draslinu enda ekki marktækt að stíga á þetta, það er logið að manni alla daga, meira segja inn á baðherbergi á sínu eigin heimili.

Árni Árna

Árni Árna

Dramatíkin heldur áfram á Kauptúni í Garðabæ. Loksins þegar jólageitin er afgirt með rafnmagnsgirðingu til að halda frá þeim stórfurðulegu aðilum sem fá unun úr því að kveikja í jóladóti, veldur saklaus jólasería stóru báli. Það læðist orðið að mér sá grunur að okkur sé ekki ætlað að njóta geitarinnar. Ég tek ofan fyrir þrautseigju Ikea fyrir að reyna og reyna og reyna svo aftur og þurfa svo að viðurkenna í þokkabót að Ikea skartar ekki Ikea seríum á sjálfri jólageitinn, ætli Byko skarti jólaljósum frá Húsasmiðjunni ?

Það er margt skrítið sem á sér stað í samfélaginu, asísk hjón klöguð af heilbrigðisstarfsmanni til útlendingastofnunarinnar. Frúin þótti barnaleg og hann þótti óframfærinn, bráðnauðsynlegt að tilkynna slíkar grunsemdir. Þessi starfsmaður er búinn að horfa of mikið á spítalaþætti. Á sama tíma er þekktur karlmaður á miðjum aldri laus allra mála eftir að hafa átt kynmök við stúlku undir lögaldri og barnað hana. Sönnunargögnin voru ekki næg. Málið hlýtur að vera fordæmisgefandi og valda því að DNA rannsóknir eiga ekki við rök að styðjast lengur. En endilega höldum áfram að taka fyrir einstaklinga sem enn njóta æskuljómans, þetta eru stórhættuleg fyrirbæri.

Nú liggur fyrir að þjóðkirkjan ætlar að eyða 150 milljónir í markaðssókn þar sem ört fækkandi meðlimir er raunin. Spurning hvort verði í boði trúðar og candyflos í messum og hver veit nema sóknir kasti í bjórkvöld eða messuvínssmökkun. Nú þá gæti kirkjan boðið upp á fjölskyldupakka, ein gifting, þrjár skírnir og fermingar og tvær jarðafarir á aðeins 199.000 kr. það verður gaman að fylgjast með hvernig kirkjan spilar úr þessum milljónum á sama tíma og þjóðkirkjan krefst efna á samningi við ríkið upp á ríflega 200 milljónir – við eigum sem sagt að greiða markaðssetninguna á deyjandi þjóðkirkju.

Til hamingju læknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar og lögreglan, með frábæra kjarasamninga. Það var löngu tímabært að blása í launaumslögin og sjá má að það kemur ekkert verra út fyrir lögregluna sem ekki hefur verkfallsrétt en þær stéttir sem hafa hann. Loksins myndast stöðugleiki á markaði og ég vona svo sannarlega að hjól heilbrgðisþjónustunnar fari að snúa með eðlilegum hætti og þjónusta við sjúka sé tryggð.

Álftir gera kornbændum lífið leitt og nú er kannað hvort aldargamalt veiðibann á þessum fallega tignarlega fugli verði endurskoðað. Ég skil vel vanda þeirra, en get ekki sagt að ég styðji dráp á álftum. En það sem skaut mig mest í fréttinni var að framkvæmdastjór Bændasamtakana sagði í samtali við fjölmiðla að tjónið væri mikið og spurði hvort rétt væri að bændurnir bæru það einir. Hvað er hægt að ætlast til að mikið fjármagn sé sett í landbúnaðinn spyr ég ? Erum við reiðubúinn að tryggja hag bænda út í yrstu æsar eða fer að koma tími á að þeir takist á við hagræðingu og standi í rekstri sem stendur undir sér? Íslenskar landbúnaðarafurðir eru á heimsmælikvarða, enda mega þær vera það miðað við hvað við skattgreiðendur pungum út í framleiðsluna og rífum svo aftur upp veskin þegar afurðin er mætt í verslanir.

Talandi um trúmál þá er kristilega sjónvarpsstöðin Omega komin í blaðaútgáfu og kallast snepillinn Betra land. Þar er Putín lofað hásterkt fyrir að setja lög gegn kynvillu, fóstureyðingum og femínisma. Ég spyr bara hvað er að gerast í trúarmálum í landinu? Okkar opna og yndislega samfélag situr undir kvenfyrirlitningu, andúð í garð hinsegin fólks og framvegis. Svo segir í frétt um þetta tiltekna blað að vísu gangi erfiðlega að selja auglýsingar í blaðið. Guði sé lof segi ég nú bara, ég gæti ekki með glöðu geði skeint mér á þessu hvað þá meira. Ég vona að ekki nokkur maður kaupi auglýsingar í þessu blaði og ýti þar með undir vitleysuna sem er ekkert annað en árás á mannréttindi sem hafa náðst í landinu á síðustu áratugum.

Svört skýsla RÚV leit dagsins ljós þar sem fram kemur að RÚV skuldar bara 7 milljarða og farið er fram á að ríkið hækki RÚV-skattinn á okkur sauðina. Er ekki bara hægt að borga minna fyrir fréttirnar og áramótaskaupið? Meira horfi ég ekki á. Þá er það rétt sem SUS bendir á að í samanburði við 365 miðla að einkarekstur kemur betur út en ríkissrekstur. Sjónvarpsstöðvar í þeirri mynd sem við þekkjum þær eru dalandi fyrirbæri. Unga fólkið í dag dælir niður efninu eftir hentugleika og horfir þegar þeim sýnist. Þá er líka áberandi í skýslunni að Vodafone tók RÚV (þjóðina) í rassgatið með dreifikerfinu góða og fór kostnaðurinn úr 297 milljónum í 573 milljónir, við erum bara að tala um að senda út þessi finnsku sjónvarpsleikritin og eytt var 4 milljörðum í kerfið sjálft. Svo situr Páll Magnússon í fýlu og skrifar óróður í garð menntamálaráðherra sem lét hann taka poka sinn. Það liggur fyrir að ríkissrekstur kostar alltaf meira og þegar endar ná ekki saman er skuldinni skellt á skattgreiðendur – við þurfum að losa okkur við RÚV í því formi sem reksturinn er í í dag .

Orkuveitan hefur víða komið við í gegnum tíðina og má þar helst nefna risarækjueldi sem engin skildi í reksrti veitunnar, en núna er OR komin á kaf í svepparæktun. Eflaust bara föstudags-aulahúmor í mér að glotta að vatnsfyrirtæki glími við rakavandamál.