Nýjast á Local Suðurnes

Keflvíkingar senda gíróseðla á bæjarbúa – Vantar nýjan markvörð

Knattspyrnudeild Keflavíkur hefur brugðið á það ráð að senda út valgreiðslu í heimabanka á bæjarbúa með það að markmiði að fjármagna hluta rekstursins, liðið situr sem kunnugt er á botni Pepsí-deildarinnar með aðeins 5 stig.

Þetta kemur fram á Vísi.is en þar segir að knattspyrnudeildin ætli sér að senda valgreiðslu á alla íbúa Reykjanesbæjar sem eru 18 ára og eldri. Valgreiðslan er upp á 3.000 krónur. Þeir sem greiða hjálpa við rekstur deildarinnar, auk þess að taka þátt í happadrætti þar sem ársmiðar á leiki liðsins á næsta tímabili eru í boði.

Þorsteinn Magnússon formaður knattspyrnudeildarinnar sem hefur ekki séð ástæðu til að svara fyrirspurnum Local Suðurnes vegna málefna deildarinnar og stöðunnar sem nú er uppi, segir í samtali við Vísi að félagið sé enn á höttunum eftir leikmönnum og sagði að nú væri í skoðun að taka nýjan markvörð þar sem Richard Arends væri farinn.

Formaðurinn viðurkennir í spjalli sínu við Vísi að deildin hafi farið fram úr fjárhagsáætlunum í sumar: „Við erum búnir að fara í kostnaðarsamar aðgerðir í sumar og vantar smá stuðning við þær.” Sagði Þorsteinn.