Nýjast á Local Suðurnes

130 milljónir í aðkeypta ráðgjöf vegna viðræðna við kröfuhafa

Reykjanesbær hefur greitt um 120 milljónir króna og Reykjaneshöfn um 10 milljónir króna í aðkeypta ráðgjöf í tengslum við viðræður við kröfuhafa, fjöldi utanaðkomandi lögfræðinga, viðskiptafræðinga og endurskoðenda hafa unnið fyrir Reykjanesbæ í viðræðunum.

Markmið viðræðnanna hefur verið að koma Reykjanesbæ undir lögbundið 150% skuldaviðmið fyrir árið 2022, skuldaviðmið sveitarfélagsins er nú 221 prósent og miðað við áætlanir Reykjanesbæjar verður hlutfallið yfir 200 prósent árið 2022 fáist skuldir ekki afskrifaðar. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar segir við Fréttablaðið að viðræðurnar séu búnar að taka mun lengri tíma en búist var við, en að viðræðurnar séu komnar of langt á veg til þess að hætta við. Kjartan segir að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga muni endurgreiða stóran hluta af útlögðum kostnaði vegna ráðgjafarinnar. Það verði hins vegar ekki gert upp fyrr en að loknum viðræðum við kröfuhafa.

Í grein Fréttablaðsins kemur einnig fram að Reykjaneshöfn hefur verið í greiðslustöðvun frá 15. október síðastliðnum og fékk síðast greiðslufrest framlengdan til 15. mars. Höfnin stefnir að því að fá greiðslufrestinn framlengdan til 15. apríl næstkomandi.