Nýjast á Local Suðurnes

Njarðvíkingar fá að nota bílastæði við Afreksbraut undir bílaleigubíla

Bæjarráð Reykjanesbæjar samþykkti á fundi sínum þann 27. október síðastliðinn að veita Knattspyrnudeild Njarðvíkur heimild til afnota af bílastæði við íþróttaaðstöðu félagsins við Afreksbraut. Deildin fór þess á leit við Umhverfis- og skipulagsráð sveitarfélagsins í byrjun október að fá afnot af umræddum bílastæðum undir geymslu á bílaleigubílum, gegn gjaldi.

Beiðni Knattspyrnudeildarinnar var hafnað á fundi ráðsins þann 11. október síðastliðinn, en bæjarráð hefur nú veitt Njarðvíkingum heimild til afnota af bílastæðunum, sem annars eru lítið sem ekkert notuð á þessum árstíma. Heimildin gildir frá 1. nóvember til 1. maí árið 2017.