Nýjast á Local Suðurnes

Íbúar fá greitt fyrir að skila inn endurvinnsluefnum

Íslenska endurvinnslufyrirtækið Pure North hyggst setja upp grenndarstöð í Reykjanesbæ þar sem íbúar fá greitt fyrir að skila inn endurvinnsluefnum frá heimilum. Önnur stöð verður sett upp í Kópavogi og stefnt er á að setja slíkar stöðvar upp í fleiri sveitarfélögum.

Um er að ræða tilraunaverkefni til þriggja ára og hafa Reykjanesbær og Kópavogur samþykkt að ganga til samninga við fyrirtækið um uppsetningu stöðvanna. Gert er ráð fyrir að allt að fimm móttökustöðvar verði reistar í september hjá sveitarfélögunum og fyrirtækjum og fleiri fylgi í kjölfarið.