Leitaði að húsi og ók næstum því á lögreglubíl

Betur fór en á horfðist þegar bifreið, sem ekið var á móti lögreglubíl á Suðurnesjum um helgina, var skyndilega sveigt yfir miðju vegar svo lögreglumaðurinn sem ók hinni síðarnefndu þurfti að hemla og sveigja til hliðar til að forðast árekstur.
Ökumaðurinn sem ók yfir á rangan vegarhelming reyndist vera erlendur ferðamaður og sagðist hann hafa verið að skyggnast um eftir húsi eða skilti, að því er fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum. Maðurinn var sektaður um 15 þúsund krónur sökum ógætilegs aksturs.