Þrír farþegar Air Berlin urðu eftir á Íslandi – Skulda umtalsverðar upphæðir

Allir nema þrír farþegar flugfélagsins Air Berlin, sem áttu bókað flug með vél félagsins sem var kyrrsett á Keflavíkurflugvelli í gærkvöldi, þáðu boð um ferð með annarri vél félagsins sem var á leið til Berlínar, Kyrrsetta vélin var aftur á móti á leið til Düsseldorf. Flugfélagið útvegaði farþegunum sem eftir urðu á landinu gistingu.
Þetta kemur fram í umfjöllun mbl.is um málið. Þar kemur einnig fram að flugfélagið skuldi Isavia umtalsverðar upphæðir að sögn Guðna Sigurðssonar, upplýsingafulltrúa Isavia.
„Við viljum ekki fara út í viðskiptastöðu viðskiptavina okkar almennt. Þetta eru umtalsverðar upphæðir og við færum ekki út í svona neyðarúrræði nema um háar upphæðir sé að ræða og við teljum ekki miklar líkur á því að það komi greiðsla,“ sagði Guðni við mbl.is.