Nýjast á Local Suðurnes

Kurr í lögreglumönnum vegna nauðgunarmáls – Hefðu viljað gæsluvarðhald

það var mat lögreglunnar á Suðurnesjum að rannsóknarhagsmunir stæðu ekki til þess að fá pilt, sem grunaður er um að hafa nauðgað ungri stúlku á Suðurnesjum, úrskurðaðan í gæsluvarðhald. Þá hafi óreynd afleysingarmanneskja komið að rannsókn málsins þar sem reyndasta fólkið í þessum málaflokki hafi verið í sumarfríi þegar málið kom upp.

Það er Fréttatíminn sem greinir frá þessu á vef sínum og blaðamenn miðilsins heimildir fyrir því að kurr sé í lögreglumönnum á svæðinu yfir því að pilturinn sem grunaður er um að nauðga tveimur fimmtán ára stelpum með sex daga millibili, hafi ekki verið settur í gæsluvarðhald þegar fyrra málið kom upp á Suðurnesjum.

Þá tekur miðillinn fram í umfjöllun sinni að Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, hafi áður verið harðlega gagnrýndur, þá sem lögreglustjóri á Suðurlandi, fyrir að krefjast ekki gæsluvarðhaldsúrskurðar yfir manni sem grunaður var um kynferðisbrot gegn börnum í Vestmannaeyjum.

Fram kom á Vísi.is fyrr í dag að spurningar hafi vaknað meðal almennings, sérstaklega eftir að gæsluvarðhaldsúrskurður yfir manninum var birtur á vef Hæstaréttar í fyrradag, hvort ekki hafi verið tilefni til að fara fram á gæsluvarðhald við fyrri handtöku, en nokkuð ýtarlegar lýsingar á kynferðisbrotunum sem maðurinn er grunaður um koma fram í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.