Nýjast á Local Suðurnes

Ásmundur vill að yfirmenn Símans skili illa fengnum hlutabréfum til baka

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur gert hlutabréfaútboð í Arion banka og Símanum að umtalsefni í ræðupúlti alþingis að undanförnu, hann hefur einnig verið óhræddur við að viðra skoðun sína á þessum málum á Facebook-síðu sinni, en þar segir hann meðal annars að yfirmenn símafyrirtækisins ættu að fara að leikreglum markaðarins og skila “illa fengnum hlutabréfum til baka.”

Eins og Local Suðurnes greindi frá í gær flutti þingmaðurinn harðorða ræðu á alþingi á dögunum í umræðum um störf þingsins, þar sem hann hvatti almenning meðal annars til að hætta viðskiptum við fyrirtækið. Ræðu ásmundar má finna í heild sinni hér fyrir neðan.

„Virðulegi forseti. Viðbrögð við ræðu minni hér fyrir skömmu um bankaskítafýluna voru mikil og þung — (ÖS: Frá mér.) hjá öllum, alls staðar í þjóðfélaginu. Það hefur komið fram að þrátt fyrir að bankastjóri Arion banka hafi gagnrýnt mig fyrir ummæli mín hefur hann nú viðurkennt að þeir hafi gert mistök í bankanum. Hjá Símanum eru hins vegar þau mistök ekki viðurkennd. Þar virðist skítastuðullinn vera kominn aftur upp í rjáfur eins og var fyrir kreppu. Þar ætla menn ekki að skila illa fengnum ránsfeng eins og þjófarnir eru tregir til.

Ég segi það við ykkur, kæru vinir hér í þessum sal, og ég segi það við þjóðina: Við þurfum þjóðarsókn gegn spillingu í bankakerfinu og í atvinnulífinu. Það er alger hörmung að horfa upp á þetta. Fólk er gáttað yfir þessu og ég hvet til þess að hið háa Alþingi hætti viðskiptum við fyrirtæki eins og Símann. Það ætla ég að gera og ég hvet þjóðina til að segja upp viðskiptum við þetta fyrirtæki. Við eigum að sýna samstöðu og standa saman. Við viljum ekki svona viðskipti á Íslandi. Við fengum nóg af því í kreppunni og við viljum ekki sjá þetta.

Það ríkir ófriður í samfélaginu út af þessu og það er okkar að taka á svona málum, setja reglur í þessum sal um að svona viðskipti geti ekki átt sér stað í samfélaginu sem misbjóða fólki dag eftir dag.“