Taka ekki afstöðu til fullyrðinga um skemmtanahald íbúa bæjarfélagsins á eigin heimili
Athugasemdir í 5 liðum samantekið bárust frá 11 einstaklingum vegna breytinga skipulagi vegna húsnæðis við Skipasmíðastöð Njarðvíkur við Sjávargötu í Njarðvíkurhverfi Reykjanesbæjar, en breytingar standa yfir á húsnæðinu úr skrifstofu- og iðnaðarhúsnæði yfir í íbúðarhúsnæði.
Athugasemdir voru meðal annars gerðar við hljóðvist, mögulegt skemmtanahald tilvonandi íbúa, útsýni og umferðarmál.
Samandregnar eru athugasemdir íbúa og svör skipulagsyfirvalda eftirfarandi:
Hljóðvist. Partýstand og annað getur orðið daglegt brauð.
Skipulagsyfirvöld taka ekki afstöðu til fullyrðinga um mögulegt skemmtanahald íbúa bæjarfélagsins á eigin heimili.
Innsýn í garða. Íbúar munu hafa útsýn yfir garða og sólpalla, sem dregur úr áhuga á að nýta lóðir.
Mörg íbúðarhús í nágrenninu eru tvær hæðir svo búast má almennt við innsýn í garða frá næsta nágrenni.
Verbúðir og ógn við fjölskyldulíf og börn sérstaklega. Á reitinn verða mögulega komnir um 200 einstaklingar. Börn hverfisins geta líklega ekki leikið frjálst í nærumhverfi sínu.
Íbúar Reykjanesbæjar hafa allir jafnan aðgang að opnum svæðum bæjarins.
Skert útsýni. Þriggja hæða bygging skerðir útsýni á Reykjanesfjallgarðinn.
Útsýni skerðist mögulega að einhverju leyti.
Umferðarmál og bílastæði. Umferð um hverfið hefur aukist svo að hverfið er við þolmörk. Ekki er gert ráð fyrir bílastæðum.
Réttmæt ábending varðandi bílastæði og aðkomu á lóð. Sýna þarf fram á nægan fjölda bílastæða og aðkomu að þeim á uppdrætti. Breyta þarf tengingu Sjávargötu við Klapparstíg og Tunguveg svo umferð tengd Njarðvíkurhöfn villist ekki inn í hverfið. Þetta er í ferli ásamt lagfæringum á gönguleiðum meðfram Sjávargötu. Ekki er tekið undir að umferð nálgist þolmörk vegna þess að við Njarðvíkurhöfn er mjög takmörkuð starfsemi en vegtengingar rúmar.
Notkun fellur að skilmálum aðalskipulags: 4.3.2 Skilmálar fyrir Hafnarsvæði. Ekki er leyfð íbúðarbyggð á hafnarsvæðum, nema íbúðir tengdar starfsemi fyrirtækja. Umferðarmál verða tekin til skoðunar. Bílastæðamál innan lóðar Skipasmíðastöðvar Njarðvíkur verði skýrð nánar á aðaluppdráttum en gera skal ráð fyrir 20 bílastæðum. Í farvatninu er heildarendurskoðun hafnarsvæðisins.
Erindi byggingaraðila um breytingar á skipulagi var í kjölfarið samþykkt.