Nýjast á Local Suðurnes

Sálfræðingar bjóða upp á fræðsluefni og símaráðgjöf

Sálfræðingar á fræðslusviði Reykjanesbæjar hafa útbúið hagnýtt efni fyrir foreldra undir yfirskriftinni Að takast á við óvissutíma. Efnið er gert aðgengilegt foreldrum á formi tveggja glærukynninga Hagnýt ráð til að viðhalda reglu og rútínu og Hagnýt ráð fyrir foreldra barna og ungmenna sem sýna óöryggi . Markmið fræðsluefnisins er að veita hjálpleg ráð sem geta nýst foreldrum að styðja við börnin sín á þessum óvissutímum. Það er okkar von að efnið sé aðgengilegt og nýtist sem flestum foreldrum. Þú getur nálgast fræðsluefnið með því að smella hér.

Sálfræðingar á fræðslusviði munu einnig bjóða uppá símaráðgjöf til foreldra barna í leik- og grunnskólum á meðan á samkomubanni stendur. Símaráðgjöfinni er ætlað að styðja foreldra við að aðstoða börnin sín að takast á við breyttar aðstæður á tímum Covid-19 veirunnar og fylgja fræðsluefninu eftir með almennri ráðgjöf til foreldra. Símtölin miðast við 10-15 mínútur.

Í símaráðgjöfinni verður lögð áherslu á

  • Almenn ráð til foreldra um hvernig þau geti aðstoðað börnin sín við að takast á við óvissu
  • Hjálpleg ráð fyrir foreldra barna og ungmenna sem sýna óöryggi
  • Hjálpleg ráð um hvernig megi viðhalda reglu og rútínu

 

Þú getur óskað eftir símaráðgjöf með því að senda tölvupóst á simaradgjof@reykjanesbaer.is með upplýsingum um nafn þitt, kennitölu og símanúmer. Sálfræðingar á fræðslusviði munu hafa samband við tækifæri. Símaráðgjöfin verður fyrir hádegi á þriðjudögum og fimmtudögum á meðan samkomubanni stendur.